Löggæsla í Reykjavík

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:51:55 (5797)

1996-05-08 14:51:55# 120. lþ. 133.7 fundur 507. mál: #A löggæsla í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 904 hef ég lagt fram fyrirspurn til dómsmrh. um löggæslu í Reykjavík. Tilefni þessarar fyrirspurnar er sú að á hverjum þriðjudegi birtist í Morgunblaðinu Úr dagbók lögreglunnar þar sem fram kemur hvað hefur verið að gerast í Reykjavíkurborg þá helgina. Þá má lesa eftirfarandi:

,,Um helgina var tilkynnt um 25 innbrot, 16 þjófnaði og tvo nytjastuldi. Auk þess var tilkynnt um 13 minni háttar eignaspjöll, þrjár líkamsmeiðingar og 27 umferðaróhöpp. Í þremur þeirra urðu meiðsli á fólki. Lögreglumenn þurftum 20 sinnum að fara í heimahús vegna hávaða og ónæðis að næturlagi og fjórum sinnum vegna heimilisófriðar. Afskipti þurfti að hafa af 22 vegna ölvunarháttsemi á almannafæri. Vista þurfti 20 manns í fangageymslum yfir helgina. 11 ökumenn eru grunaðir um ölvunarakstur, 56 voru kærðir fyrir að virða ekki reglur um leyfðan hámarkshraða og 23 ökumenn voru kærðir vegna annarra umferðarlagabrota. Þá voru tveir aðilar í bifreið sem stöðvuð var í Þingholtsstræti handteknir enda grunaðir um fíkniefnamisferli. Eitthvað af efnum, svo sem amfetamín, hassfræ og hassmoli fannst við leit.``

Það er athyglisvert að lesa um það að í slíkum tilfellum eru menn yfirheyrðir og að því loknu oftast sleppt. Í Bandaríkjunum er harðar á mönnum tekið og farartæki sem finnst í fíkniefni eru gerð upptæk og seld á opinberu uppboði og þeir fjármunir renna til starfsemi fíkniefnalögreglunnar. En þá að fyrirspurnunum:

1. Hversu margir lögreglumenn eru á vakt í Reykjavík: á dagvakt, á næturvakt, á dagvakt um helgar, á næturvakt um helgar?

2. Hvernig skiptast störf þeirra, þ.e. í stjórnunarstörf og almenn löggæslustörf, í hverri deild?

3. Hversu margar lögreglubifreiðar eru í notkun á framangreindum vöktum?

4. Hver hefur verið meðalfjöldi útkalla á framangreindum vöktum sl. þrjú ár?

5. Hversu langur tími líður frá útkalli (vegna annars en umferðaróhappa) þar til lögregla er komin á vettvang?

6. Hvernig hefur tæknibúnaður lögreglu þróast undanfarin ár, þ.e.: bifreiðar, tækjakostur við skýrslugerð, tækjakostur við löggæslustörf?

7. Er tækjakostur lögreglu sambærilegur við það sem tíðkast í öðrum Evrópuríkjum?

Herra forseti. Það er að gefnu tilefni sem ég legg þessa fyrirspurn fram og með tilvísun til þess sem hér birtist á hverjum þriðjudegi í blöðum að ég veit það að borgarbúum er orðið órótt vegna þess ástands sem hér hefur skapast á umliðnum árum.