Varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:49:42 (5819)

1996-05-08 15:49:42# 120. lþ. 133.11 fundur 502. mál: #A varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:49]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni fyrir að vekja máls á því sem virðist lítið og sakleysislegt eins og hann sagði sjálfur, en er í rauninni stórmál. Í máli hússtjórnarskólanna endurspeglast sú þróun sem átt hefur sér stað í skólamálum þjóðarinnar að undanförnu, þ.e. að sérskólastefnan hefur verið á undanhaldi en við hefur tekið hinn almenni framhaldsskóli, starfrækjandi einstakar námsbrautir. Þetta snýst um húsnæði. Þetta snýst um þann búnað sem fylgdi hússtjórnarskólum og almenna þekkingu og þau markmið sem fylgdu hússtjórnarfræðslu. Tímans vegna er ekki hægt að fara út í þetta í smáatriðum. Ég tel að í svari hæstv. ráðherra hafi komið fram mjög skynsamleg nýting á húsnæðinu við breyttar aðstæður. Eftir stendur eigi að síður að hússtjórnarkunnáttu almennt þarf að taka verulega til endurskoðunar. Af reynslu minni úr framhaldsskóla finnst mér að hússtjórnarkunnátta nemenda af karl- og kvenkyni sé verulega á undanhaldi þrátt fyrir menntun þar um í grunnskólanum. Því vil ég skora á hæstv. menntmrh. að gera stórt átak í þeim fræðum því að þar er kannski grundvöllur að jafnrétti kynjanna lagður.