Álag á vörugjald af millifrakt í alþjóðaflutningum

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 16:12:12 (5828)

1996-05-08 16:12:12# 120. lþ. 133.8 fundur 453. mál: #A álag á vörugjald af millifrakt í alþjóðaflutningum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[16:12]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin. Mér er vel ljóst sá vandi sem á herðum hæstv. samgrh. hvílir hvað áhræir ýmsar smærri hafnir í hinni dreifðu byggð og er sjálfsagt að gera hvað hægt er til að létta undir með þeim rekstri sem vissulega er mjög erfiður.

Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. samgrh. að Reykjavíkurhöfn skiptist nánast í tvær hafnir, þ.e. fiskihöfn og svo þá höfn þar sem kaupskipin koma með sínar vörur að og frá landinu. Það mál sem er hins vegar hér á ferðinni snertir samkeppni milli hafna um þessa millifrakt. En þarna var ekki um hana að ræða vegna þess að Grænlendingar höfðu rætt við hafnarstjórn Reykjavíkurhafnar um þá möguleika að umskipa vöru hér, eins og ég gat um áðan, í millifrakt til annarra hafna Evrópu og jafnvel til Bandaríkjanna. Ég tel að það sé nauðsynlegt að endurskoða þessi lög með það í huga að um leið og við eigum möguleika á að fá millifrakt erum við að auka athafnasemi innan hafnarinnar og við erum líka að skapa tekjur hafna og við eru líka að auka atvinnutækifæri sem ekki veitir nú af. Ég hjó sérstaklega eftir því að hæstv. samgrh. hefur hug á að láta skoða þetta mál og ég vænti þess að það verði gert. Ég tel að þetta einstaka mál hafi ekki valdið neinni skekkju og muni ekki rugga þeim báti sem samgrh. kom inn á áðan, þ.e. þeim báti sem fellur undir óvægna samkeppni milli hinna stærstu hafna hér á landi.