Hvalveiðar

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:20:03 (5834)

1996-05-09 12:20:03# 120. lþ. 134.91 fundur 295#B hvalveiðar# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:20]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Nú er svo komið að við Íslendingar erum að verða að athlægi víða um heim. Ítrekaðar yfirlýsingar um að við ætlum að stunda hvalveiðar án þess að láta athafnir fylgja orðum eru því miður grátbroslegar. Undanlátssemi við rangtúlkanir umhverfissamtaka mega ekki ganga of langt. Þeir sem eru undanlátssamir við slíka hópa eru á rangri hillu. Maður hlýtur að spyrja sig: Hve lengi ætlum við Íslendingar að láta alþjóðleg öfgaöfl ráða gerðum okkar? Það má vel vera að það hafi verið rétt að lúffa í fyrstu en nú er komið nóg.

Það er réttur okkar og skylda að nýta allar náttúruauðlindir til hagsbóta fyrir þjóðina. Hvalir eru engin undantekning. Rökin, bæði vísindaleg, efnahagsleg og siðferðileg, eru öll okkar megin. Það hefur nú komið á daginn það sem menn höfðu í flimtingum fyrir nokkrum árum, að friðarhreyfingar mundu friða fiskinn í sjónum, er einmitt að gerast. Nýjasta dæmið eru tilkynningar þess efnis að ganga eigi af bræðsluveiðum dauðum. Hvað gerum við þá? Við sem erum að byggja upp og endurbæta bræðsluverksmiðjur og skip fyrir milljarða hér bara á suðvesturhorninu? Eigum við þá að fórna hagsmunum enn einu sinni? Ég segi nei. Það er ljóst að sjónarmið okkar hafa fengið vaxandi fylgi víða um heim, einkum í Bandaríkjunum og við höfum getað varpað kastljósum að þessum málum þar. Það var ekki stjórnvöldum að þakka. Það var sérstaklega einum manni að þakka, Magnúsi Guðmundssyni kvikmyndagerðarmanni. Með einkaframtaki sínu hefur hann átt stóran þátt í því að opna augu almennings og stjórnmálamanna þar í landi. Þetta eigum við að nýta okkur.

Nú er svo komið að í Bandaríkjunum hafa fjöldahreyfingar sem telja tugmilljónir manna og áhrifamiklir stjórnmálamenn tekið undir okkar sjónarmið. Ótti um hugsanlegar refsiaðgerðir vegna hvalveiða okkar núna er því að mínu mati ástæðulaus. Meira að segja formaður utanríkismálanefndar Bandaríkjaþings hefur lýst því yfir að slíkar hótanir séu markleysa ein. Ég vil því segja að við eigum að hefja hvalveiðar strax í sumar.