Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 15:41:31 (5852)

1996-05-09 15:41:31# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[15:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér á þingpöllunum er fjöldi fólks. Það eru fulltrúar úr samtökum launafólks. Þeir hafa kynnt sér þennan málarekstur allan og hlýtt á málflutninginn. Nú hafa menn fengið óræka sönnun þess ómálefnalega málflutnings sem við höfum verið að gagnrýna.

Fyrsta röksemd hv. þm. var sú að því meira sem talað væri um málið, því meira fylgi fengi það með þjóðinni. Ekkert málefnalegt er þar lagt fram heldur sleggjudómar. Síðan segir hv. þm. að ég hafi verið að tala fyrir æviráðningu. Í rauninni var ég ekki að gera það. Ég var hins vegar að segja að starfsöryggið sem æviráðningin hefði átt að tryggja væri ekki að mínu mati af hinu illa heldur af hinu góða. Það væri gott að veita fólki starfsöryggi, það væri ekki slæmt. Ég veit að hugmyndafræði frv. byggir á því að fólk starfi í ótta, í stöðugum ótta. Það er hugmyndafræði þessa frv.

Síðan var spurningin um að það sé ekki verið að afnema biðlaunarétt. Þetta eru ósannindi, þetta eru hrein og klár ósannindi. Fæðingarorlofið og veikindarétturinn eru ekki í uppnámi, segir hv. þm. Það er alveg rétt að þau eru inni í bráðabirgðaákvæði þar til um annað semst. Síðan færði ég rök fyrir því og vitnaði þar m.a. í álitsgerðir þar sem rök eru færð fyrir því að þessi réttindi kunna að vera í hættu.

Síðan var spurningin að nú séu allir að bíða eftir því að fá viðbótarlaunin. Þar voru líka færð rök fyrr því að það sem vekti fyrir ríkisstjórninni væri ekki að auka launasummuna heldur minnka hana. Mér var sagt það og það segir líka í þessu frv. Allir vilja verða embættismenn, sagði hv. þm. Þetta er kannski bara misskilningur hjá okkur öllum. Vilja kannski allir verða embættismenn? Hvers konar rugl er þetta eiginlega sem þinginu er boðið upp á? Það er verið að vitna í álitsgerðir allra verkalýðssamtaka í landinu og hann segir að menn eigi bara þann dýpstan og heitastan draum að verða embættismenn í anda hæstv. ráðherra og undir hans handarjaðri, meiriháttarmannsins Friðriks Sophussonar. Ég held nú ekki.