Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 17:03:22 (5858)

1996-05-09 17:03:22# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[17:03]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr um fæðingarorlofið eða hvort að ég ætli mér að samþykktum þessum lögum að gera breytingar á reglugerðinni. Ég vitna til þess að það hefur verið talið að um þessi mál sé fjallað í samskiptum milli vinnuveitandans og launþeganna, þessi tilteknu réttindi. Og ég býst við því að þau verði til umræðu þegar um kjarasamninga verður að tefla. Ég get ekkert staðhæft um þetta núna en það er hins vegar athyglivert að hv. þm. skuli spyrja þessarar spurningar því í henni felst að hv. þm. ætlast til þess að ég breyti reglugerðinni sem ekki er hægt að gera nema með breyttum lögum. Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þm.: Er hann tilbúinn til að stuðla að breytingum á þessum lögum þannig að hægt sé að breyta reglugerðum sem byggjast á lögunum? Það væri fróðlegt að heyra hv. þm. svara því þótt ég fari nokkuð nær um svarið.

Svo vil ég að lokum, virðulegi forseti, láta koma hér skýrt fram að ég tel, og ég held að öll gögn bendi til þess hvað sem segja má um nákvæmni lagatextans, að í lögunum um alþingismenn var aldrei ætlunin að alþingismenn fengju meiri rétt en opinberir starfsmenn. Enda var vísað í lögin beinlínis til þess að sjá um að þeir fengju sambærilegan rétt en ekki annan og meiri rétt. Og fyrst farið er að ræða um alþingismenn í þessu sambandi þá er best að ég láti það fara hér að ég tel að verði þessi lög samþykkt, sem sagt þetta frv. sem hér er, þá beri alþingismönnum að breyta sínum réttindum með tilliti til þeirra breytinga sem hér er verið að gera. Þá er ég að tala um t.a.m. biðlaunaréttinn. Allir vita að ráðning alþingismanna er ekki nema í hæsta lagi fjögur ár en varðandi biðlaunaréttinn tel ég að það sé kominn tími til að alþingismenn geri sams konar breytingar á sínum kjörum hvað þetta snertir og ætlunin er að gera með því lagafrv. sem hér liggur fyrir.