Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 22:22:04 (5863)

1996-05-09 22:22:04# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[22:22]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fullvissa hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson sem talaði áðan um það að mér líður alveg hreint bærilega og sérstaklega eftir þessa skemmtilegu og yfirgripsmiklu ræðu hv. þm. sem var sem betur fer ekki endurtekning á sömu ræðunni og hafði verið flutt a.m.k. sex sinnum á undan honum. Ég vil því óska honum hjartanlega til (Gripið fram í.) hamingju með ræðuna.

Ég er farinn nokkuð að skilja þessa ræðu, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og í rauninni er það þannig að þær breytingar sem verið er að gera með þessu frv. virðast þegar upp er staðið í sjálfu sér falla hv. þm. og þeim sem hér tala nokkuð þokkalega í geð. T.d. er allt í einu búið að sannfæra þá hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson og hv. samþm. hans Jón Baldvin Hannibalsson um það að æviráðning sé ekki gott mál. Það er alveg sérstakt afreksverk tel ég af hálfu núv. ríkisstjórnar að geta sannfært þá tvo um að eitthvað sé gott mál. Venjulega eru þeir ekki svo sammála um margt.

Í annan stað fannst mér hv. þm. nokkuð jákvæður í garð breytts launakerfis sem væri verið að taka upp, það væri ekki svo alslæmt og að það mætti kannski gera eitthvað gott úr því.

Í frv. og breytingartillögum sem verið er að leggja fram er einmitt reynt að feta inn á þessa braut nokkuð varlega. Ég hygg að það muni taka nokkur ár og nokkrar samningalotur við opinbera starfsmenn að slípa þetta þannig að þetta fari að virka sem svona virkilega ríkur þáttur í launakerfi opinberra starfsmanna. En eins og hv. þm. veit sem fyrrv. ráðherra, þá eru launamál opinberra starfsmanna ekki í hinu besta horfi. Þeir kvarta undan lágum launum en ekki síður því að launakerfið er bæði formlegt samkvæmt kjarasamningum en síðan óformlegt með alls kyns yfirvinnusamningum og slíku sem yfirleitt er byggt á einstaklingsbundnum grunni.