Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 12:27:27 (5872)

1996-05-10 12:27:27# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[12:27]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér er fullkunnugt um það að þessi réttindi breytast ekkert með þessu frv. hjá þeim sem þegar hafa þau. Það er ekkert óeðlilegt við þau réttindi sem þeir halda. Það hefði svo sem heldur ekkert verið óeðlilegt við það að öll þessi réttindi væru minnkuð eða dregin til baka eða eitthvað slíkt. Það sem við erum alltaf að gagnrýna er að það skuli vera gert einhliða án þess að nokkrar bætur komi fyrir og það er alveg sama þó að biðlaunarétturinn og einhver fleiri réttindi hafi verið til staðar áður en menn fengu samningsrétt og verkfallsrétt. Þessi réttindi eru búin að vera árum saman síðan þeir öðluðust samningsréttinn og samt hefur þetta staðið og þetta hefur verið metið til launa. Það hafa starfsmenn gert og það hefur margsinnis komið fram í ýmsum umræðum og umfjöllun um þessi mál. Þessi réttindi sem er sagt að breytist ekkert verða áfram hjá fastráðnum starfsmönnum ríkisins sem eru það núna en fellur niður hjá þeim sem eru nýir og það hlýtur að leiða til krafna um bætur í launum. Það er það sem er alltaf verið að tala um.

Ég efast ekkert um góðan hug hæstv. ráðherra sem hann hefur verið að koma á framfæri með hugmyndastefnum og ég veit ekki hverju og hverju. En ætli árangurinn af slíku verði ekki heldur lítill þegar ráðist er að fólki með þeim hætti sem er gert og hefur verið gert að undanförnu í sambandi við þetta mál. Ég er hrædd um að það verði ekki til mikilla bóta. Ég verð að segja að eins og hæstv. ráðherra lýsti gerðum sínum í þessu efni þá datt mér bara í hug tvíburarnir í bókinni hennar Guðrúnar Helgadóttur: Nú erum við aldeilis góðir, sögðu þeir.