Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 14:26:02 (5881)

1996-05-10 14:26:02# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[14:26]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla til menntrmh. um endurskoðun á útvarpslögum eins og segir á titilsíðu. Hún er unnin á vegum menntmrn. og því væntanlega kostuð af almannafé. Hér er þó ekki um stefnu ríkisstjórnarinnar að ræða eins og kom fram hjá talsmanni Framsfl. Því væri nær að kalla þetta vinnuplagg Sjálfstfl., vinnuplagg þar sem stefna menntmrh. kemur fram hrein og skýr enda hefur hann lýst yfir ánægju sinni með þessar hugmyndir.

Þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð vekja fyrst og fremst athygli því það er alveg á mörkunum að það sé boðlegt að Alþingi sé að ræða hugmyndir annars stjórnarflokksins um þessi mál. Mér er ekki kunnugt um að stjfrv. sé í vændum því að ekkert slíkt kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Því liggur beint við að spyrja: Hvers konar plagg er þetta eiginlega?

Í samantekt skýrslunnar kemur fram að meginviðfangsefnið hafi verið að tryggja hag innlendrar dagskrárgerðar og megininntak skýrslunnar sé að leita leiða til þess. Titill skýrslunnar er hins vegar: ,,Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum.`` Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh. og talsmenn Framsfl. hvort þessi skýrsla segi eitthvað til um hvað ríkisstjórnin hyggst gera á þessu sviði og stefnu hennar gagnvart einni merkustu menningarstofnun þjóðarinnar, Ríkisútvarpinu.

Í stefnuskrá Kvennalistans er lögð áhersla á að rekstrargrundvöllur Ríkisútvarpsins verði tryggður svo að það geti sinnt því upplýsinga-, menningar- og öryggishlutverki sem því er ætlað. Þá er lögð áhersla á að auka hlut innlendrar framleiðslu á útvarpsefni hjá Ríkisútvarpinu. Hvernig samræmast hugmyndir skýrsluhöfunda þessum hugmyndum Kvennalistans?

Efnislega virðist mér að markmið skýrslunnar sé annað en af er látið. Í fyrsta lagi virðist meginmarkmiðið vera að skapa aukið svigrúm fyrir einkamiðla og það sé fyrst og fremst það sem er verið að gera þannig að hvorki er það titill skýrslunnar né það sem segir í samantekt um inntakið sem er aðalatriði. Hvernig ætla svo skýrsluhöfundar að auka svigrúm einkarekinna miðla? Í fyrsta lagi á að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði 1. jan. 1999. Reyndar bendir einn nefndarmanna á að það gangi ekki upp gagnvart sjónvarpinu því að væntanlega komi þar upp fákeppni nema fleiri sjónvarpsstöðvar komi til og þess vegna eigi þetta aðallega við hljóðvarpið.

Í öðru lagi er lagt til að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður þannig að auglýsingatekjur stöðvanna fari óskertar til einkastöðvanna og þeirra eigin nota. Það þarf ekki að orðlengja um það á þessum vettvangi að vissulega er Menningarsjóðurinn umdeildur en hér er ekki eitt orð um það hvernig eigi t.d. að fjármagna Sinfóníuhljómsveitina ef hann verður lagður niður sem ég tel alveg nauðsynlegt að taka á.

Í þriðja lagi á að kippa stoðum undan sjálfstæði Ríkisútvarpsins með því að leggja niður afnotagjöldin og setja í staðinn nefskatt á einstaklinga 16 ára og eldri. Ég vek athygli á því að fjölmennari fjölskyldur þyrftu þá að greiða meira til Ríkisútvarpsins en fámennari. Einnig þykir koma til greina að fjárframlög til Ríkisútvarpsins verði ákveðin á fjárlögum hverju sinni. Það sér hver heilvita maður að þá verður það í höndum fjárln. hverju sinni hvort Ríkisútvarpið fær yfir höfuð rekstrarfjármagn.

[14:30]

Fjórða leiðin til þess að efla einkafjölmiðlana er að takmarka starfsemi Ríkisútvarpsins við það sem ekki verður gert annars staðar. Það þýðir að mínu mati væntanlega að leggja á niður Rás 2 þótt að það sé ekki sagt beinum orðum.

Til að ná þessum markmiðum þarf auðsjáanlega að breyta útvarpslögunum og breyta starfsemi Ríkisútvarpsins. Auk þess sem ég hef þegar nefnt á líka að leggja niður útvarpsráð. Ég vil taka undir þá hugmynd. Við kvennalistakonur höfum gert það áður og teljum að það þurfi að hugleiða vel hvort rétt sé að stjórna Ríkisútvarpinu með pólitískt skipuðu útvarpsráði. En hvað á að koma í staðinn? Fimm manna rekstrarstjórn sem ráðherra einn ræður yfir. Í stað þess að þeir flokkar sem sitja á Alþingi stjórni Ríkisútvarpinu, á það að vera ráðherra einn. Ég tel afar vafasamt hvernig þessum málum er fyrir komið.

Þá vil ég taka undir þá hugmynd að lögð verði niður svokölluð kostun við gerð dagskrárefnis. Ég tel það ekki samræmast menningarhlutverki útvarpsins.

Herra forseti. Þótt útvarpslögin þurfi stöðugt að vera í endurskoðun, ekki síst vegna örra tækniframfara og vaxandi starfsemi fjölmiðla í nútímaþjóðfélagi, þá er að mínu mati alveg ljóst að þessar hugmyndir tryggja alls ekki að Ríkisútvarpið geti sinnt sínu upplýsingar-, menningar- og öryggishlutverki almennilega. Reyndar er gefið skýrt til kynna að öryggishlutverk Ríkisútvarpsins geti flust yfir á einkastöðvar. Sú lausn er þó alls ekki í spilunum á þessari stundu eins og hv. málshefjandi og fleiri aðilar hafa bent á. Þótt menningarverðlaun ljósvakamiðla séu ágætishugmynd munu þau ein og sér alls ekki duga til að tryggja gott menningarefni í ljósvakamiðlunum, ekki síst ef Ríkisútvarpið missir sjálfstæði sitt og veikist sem stofnun. Þess vegna er ég mjög mótfallin þessum hugmyndum þó ég sé alls ekki þar með að segja að ekkert megi breytast hjá Ríkisútvarpinu.

Frjáls fjölmiðlun er vissulega eitt af megineinkennum nútímaþjóðfélags. Frjálsir ljósvakamiðlar eiga fullan rétt á sér. En ég tel að flestir landsmenn séu sammála um að sterkur ríkisfjölmiðill sé nauðsynlegur til þess að tryggja að fjölmiðlar sinni sínu menningar-, upplýsinga- og öryggishlutverki. Það er ekki tryggt í þessum hugmyndum og það verður að vera tryggt ef við eigum að lifa af í okkar hættulega landi, lifa af sem sjálfstæð menningarþjóð. Á það leggur Kvennalistinn áherslu.