Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:57:10 (5900)

1996-05-10 15:57:10# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:57]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti nú í neinu persónulegu orðaskaki við hv. þm. en ég held að þingmönnum muni almennt létta þegar þeir heyra að ekki standi til af hæstv. ríkisstjórn að afnema biðlaunarétt þingmanna fyrir næstu kosningar. En það er ekki boðskapurinn sem verið er að senda opinberum starfsmönnum sem starfa í þjónustu ríkisins og löggjafarstofnunarinnar sem hér segir.

Virðulegi forseti. Það segir á bls. 37 í athugasemdum með því frv. sem við erum að ræða: ,,Réttur til biðlauna verður sá sami og í núverandi lögum en þó gerð sú breyting að frá þeim dragast önnur laun sem starfsmaðurinn kann að hafa á biðlaunatímanum. Þessi breyting kann að leiða til nokkurs sparnaðar í framtíðinni ef ríkisfyrirtæki eða stofnun er breytt í hlutafélag eða fært til sveitarfélaga.``

Með öðrum orðum, það er gert ráð fyrir að afnám biðlaunaréttarins leiði til sparnaðar hjá ríkinu miðað við tilteknar formbreytingar á ríkisrekstri. Og ef það leiðir til sparnaðar, hvers vegna leiðir það þá til sparnaðar? Vegna þess að fólkið missir þær greiðslur sem ella hefðu verið greiddar til þess ef þessi breyting hefði ekki verið gerð. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson kann bæði að leggja saman og draga frá. Ríkið getur ekki sparað sér fé með þessu móti nema það sé tekið af einhverjum öðrum og það er í þessu tilvikið tekið af starfsmönnunum í krafti þeirrar réttindasviptingar sem hér á sér stað.