Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 17:26:28 (5948)

1996-05-13 17:26:28# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[17:26]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að láta í ljós vonbrigði mín með svör hæstv. fjmrh. Ég held að ég hafi lagt fyrir hann einar 20 spurningar og hann svarar einni varðandi vinnumatssjóð og hann heldur að kjaranefnd geti gert hitt eða þetta. Það er ekki nógu skýrt að fá svona svör.

Ég vil ítreka enn einu sinni ef það hefur farið fram hjá mér: Er ætlunin að allir háskólakennarar verði embættismenn eins og frv. gerir ráð fyrir? Ég hef alls ekki fengið það á hreint. Það virðist vera sem svo sé ekki samkvæmt fylgifrv. Síðan er gefið til kynna að það verði endurskoðað. En þetta frv. stendur þannig að allir skipaðir háskólakennarar eigi að vera embættismenn. Er þá ætlunin að breyta 22. gr. ef það kemur einhver nýr texti í fylgifrv.?

Ég vil einnig ítreka það að ég tel mig alls ekki hafa verið með neitt málþóf. Ég fór málefnalega yfir öll atriði og sparaði oft tímann með því að telja upp einstakar setningar úr bréfum eða annað slíkt.