Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 22:31:52 (5969)

1996-05-13 22:31:52# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[22:31]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. veit, jafnmikill vísindamaður og hann er, þá gera menn nú stundum úrtaksrannsóknir þegar þeir eru að kynna sér ákveðna hluti. Ég veit að hv. þm. hefur ekki skoðað upp í þá laxa alla sem hann hefur verið að rannsaka en veit samt býsna mikið um þá.

Varðandi eitt sem kom fram hjá hv. þm. og mér þótti mikið til koma var það að honum þótti að mér virtist vænna og meira koma til orða hæstv. forsrh. en stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra samninga ef einhver misfella væri þar á milli. Ég vil gjarnan þakka honum fyrir að hafa jafnmikið álit á hæstv. forsrh. og þarna kom fram og fullvissa hann um að forsrh. stendur heill að baki frv. og telur að það sé ekki flísin á milli þess sem þar kemur fram og stjórnarskrár og alþjóðlegra samninga.

Varðandi það þegar hann fjallaði um verðmiða á biðlaunaréttindin og annað það sem menn telja að hér sé verið að ganga með til baka í réttindum eða kjörum, þá er það að sjálfsögðu þannig að kjarasamningar eiga eftir að koma og ekki bara næsta vetur heldur margir þar á eftir. Ef opinberir starfsmenn verðleggja þessi réttindi sem þeir telja að sé verið að taka af þeim, sem er nú ansi léttvægt að mér finnst, þá mun það að sjálfsögðu koma fram í kjarasamningum og um það verður rætt og oftar en einu sinni væntanlega.