Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 23:11:21 (5976)

1996-05-13 23:11:21# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[23:11]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég nefndi það í ræðu minni að stjórnsýslulögin hafa verið notuð sem viðmiðun við það hvað er við hæfi. Það er einu sinni þannig að þegar menn jafnvel eru að semja lagafrv. sem snerta þá sjálfa og fjölskyldu þeirra er ekki eðlilegt að þeir komi þar mikið nærri hvað þá að fylgja málum eftir til síðustu stundar. Ég dreg í efa að það sé rétt að málum staðið. Ég ítreka að Eiríkur Tómasson prófessor er hinn mætasti maður og á margt gott skilið og hefur staðið sig mjög vel sem lögmaður. Mér vitanlega hefur ekki fallið nokkur blettur á feril hans sem lögmanns en ég dreg í efa að hér hafi verið rétt að málum staðið af hálfu ráðherra sem skipaði þessa nefnd. En að vísu eiga menn náttúrlega að hafa dómgreind til að átta sig á því hvenær mál snerta þá sjálfa. Mér finnst alltaf óþægilegt þegar við komum að slíkum málum þar sem menn eru að fjalla um sín eigin hagsmunamál. Það snertir t.d. höfund frv. hver verða örlög prófessora og staða prófessora. Það er að mínum dómi ekki eðlilegt að menn standi þannig að málum.