Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 12:22:32 (6168)

1996-05-17 12:22:32# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, Frsm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[12:22]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Við erum held ég í aðalatriðum alveg sammála um þetta, ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Bæði er það að vandamálið er stórt og til staðar, og það höfum við rætt, og eins hitt að þetta verður ekki leyst með einhverjum refsiákvæðum og einhverjum hótunum um fangelsisvist. Ég hef ekki trú á því og er almennt ekki mjög trúaður á það að menn leysi vandamál af því tagi með því einu að innleiða eitthvert lögregluríki og strangari refsingar. En í samræmi við röksemdafærslu hv. þm. um að hann hafi fyrst og fremst flutt brtt. sína til að vekja athygli á málinu vil ég leyfa mér að segja að ég held að það hafi tekist og bara bærilega og þess vegna gæti hv. þm. kallað hana til baka. Hún hefur þegar þjónað tilgangi sínum og ekki ástæða til þess endilega að hún verði felld hér sem ég reikna nú með að ella muni verða. Um það er ekki meira að segja. Ég held að ekki sé neinn efniságreiningur á ferð, ekki á milli mín og hv. þm., um að það þarf að taka á vandamálinu og vinna með það á næstu mánuðum og missirum. Vonandi verður mönnum eitthvað ágengt í þeim efnum en með vísan til þess sem ég sagði í ræðu minni legg ég samt sem áður til að ef hv. þm. kallar ekki tillögu sína til baka þá verði hún felld.