Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 18:32:24 (6221)

1996-05-17 18:32:24# 120. lþ. 140.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[18:32]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þeir koma nú hér hver sjálfstæðismaðurinn og fætur öðrum og lýsa því yfir að þeir hafi verið að horfa á mig og væntanlega fleiri stjórnarandstöðuþingmenn hér í sjónvarpi og það er vel. Þingmaðurinn spurði hvort ég gæti bent á dæmi um áhrif á virk félög varðandi atkvæðagreiðslur. Málið snýst ekki um þetta. Það sem ég hef verið að ræða hér er lögbinding með lögþvingun á verklagsreglur eða kjarasamningaumgjörð eins og gert er í þessu frv. Það er aðalóhæfan í þessu máli. Ég hef líka gagnrýnt marga efnisþætti í þessum málum. Það er hægt að deila endalaust um prósentur til og frá. Mér finnst alltaf til bóta að sem flestir komi að ákvarðanatöku hvort sem það er í stéttarfélögum eða á öðrum vettvangi. Ég hef bent á það í mínu máli að því er algjörlega þveröfugt farið í sambandi við skipulag vinnuveitenda. Ég hef einmitt gert að umtalsefni að sama hugsun verður þá að gilda fyrir báða aðila. Það er það sem ég dró mjög skýrt fram í mínum málflutningi. Hv. þm. spurði einnig hvort menn gætu verið gagnorðari í sínum málflutningi. Hann talaði um 40 ræður, um 20 atriði. Ég held að menn reyni yfirleitt að vera eins gagnorðir og hægt er. Hér er geysilega mikilvægt mál á ferðinni og ég fullyrði að hér komi hjá hverjum einasta ræðumanni fram einhver nýr flötur á málinu. Lýðræðið er nú þannig að menn vilja oft koma að málinu með sínum hætti. Það verða menn að búa við. Það hefur ekki ríkt af neins hálfu í þessari umræðu né hinni fyrri umræðu, sem hv. þm. vitnaði til, svokallað málþóf sem er aðferðafræði sem menn beita til að tefja þingstörf. Svo hefur ekki verið og sést það einna best á því að einungis hluti stjórnarandstæðinga talaði og flestir einungis einu sinni. Málið er hins vegar geysilega mikilvægt, eins og ég hef reynt að draga fram í ræðu minni. Það er fullkomlega eðlilegt að það sé rætt ítarlega á hinu háa Alþingi. Þannig eru leikreglur lýðræðisins.