Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 10:23:16 (6225)

1996-05-18 10:23:16# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[10:23]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Fyrir svo sem tveimur áratugum hefði það þótt heldur ósennilegt að fyrir Alþingi Íslendinga ætti eftir að liggja frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögunnar. Þá voru Íslendingar að koma úr nokkuð löngu tímabili þar sem gnótt var fiskjar innan efnahagslögsögu þjóðarinnar og þjóðin þurfti því í raun lítið annað að hugsa um en að veiða fisk og gjarnan að flytja hann út að miklu leyti sem lítt unnið hráefni. Síðan urðu miklar breytingar eins og kunnugt er og Íslendingar fóru í gegnum mikið samdráttarskeið sem byggðist fyrst og síðast á hruni veiðistofna. Til allrar hamingju hefur þjóðin getað lagað sig að slíkum aðstæðum og hefur borið gæfu til að læra af neyðinni. Eins og margítrekað hefur komið fram m.a. í umræðum hér á Alþingi, þá er hin aukna sókn okkar í fullvinnslu sjávarafangs einn liður í viðbrögðum og leið til að vinna sig út úr þeim þrengingartíma sem yfir þjóðina gekk. Þar eru verulega skemmtilegir hlutir að gerast þar sem Íslendingar eru farnir að fullvinna sjávarfang í miklum mæli og auka þar með verðmætasköpun sína. Það er ein af þeim leiðum sem þjóðin hefur kosið sér í þrengingunum.

Í annan stað má nefna hina gífurlega miklu útrás þjóðarinnar til veiða á alþjóðlegu hafsvæði sem áður var í rauninni óþekkt. Það er vert að hafa í huga að veiðar okkar á alþjóðlegu hafsvæði hafa fært milljarða inn í þjóðarbúið og er fróðlegt að velta fyrir sér hver staðan í efnahagslífi okkar hefði verið ef ekki hefði komið til kjarkur og áræði einstakra útgerðarmanna og sjómanna við að leita nýrra fiskimiða á alþjóðlegu hafsvæði.

Ég nefni í þriðja lagi útrás okkar til fjarlægra landa og nefni þar sérstaklega samninga Íslenskra sjávarafurða á Kamtsjatka. Ég nefni útflutning okkar á veiðarfærum og fiskvinnslubúnaði og þannig má áfram telja.

Í fjórða lagi nefni ég þær breytingar sem orðið hafa varðandi löndun erlendra fiskiskipa hér á landi. Nýjasta dæmið er af Samherja við Eyjafjörð sem nú mun standa í samningum við Norðmenn um að kaupa af þeim ísfisk. Það er ef til vill tímanna tákn og má segja þegar allt þetta er skoðað að íslenska þjóðin hefur verið að breytast úr því að vera tiltölulega frumstæð veiðimannaþjóð í að verða iðnaðarþjóð, þ.e. þjóð sem stundar fullvinnslu á sjávarfangi og er núna farin að flytja inn hráefnið fisk í stað þess að flytja það út.

Allt hefur þetta gerst m.a. vegna þeirra ytri skilyrða sem hér voru nefnd áðan, vegna tækniframfara, vegna þess að á Íslendingum sem og þjóðum heimsins hvílir sú krafa að sýna ábyrgð gagnvart fiskveiðistjórnun og vegna þeirra alþjóðasamninga sem gerðir hafa verið á síðustu árum. Ég nefni í því sambandi að nú liggur fyrir þingi Evrópuráðsins tillaga um að aðildarþjóðirnar, um 40 að tölu, sýni mun ábyrgari afstöðu í fiskveiðistjórnun en verið hefur. Þessi tillaga verður afgreidd að öllum líkindum á næsta þingi Evrópuráðsins í lok júní á þessu ári og er ekki annað séð en að hún verði samþykkt. Það er einmitt dæmi um þá ábyrgð og þá festu sem einkennir orðið alþjóðaumræðu um fiskveiðistjórnun. Það sem er hins vegar hið ánægjulega fyrir okkur Íslendinga er að við erum að rísa úr því sem kalla má krepputímabil þar sem allt bendir til þess að fiskveiðistofnar okkar séu nú vaxandi en meginatriðið er að við komum nú reynslunni ríkari úr því þrengingarskeiði sem við höfum verið í nú um hríð. Við komum reynslunni ríkari þegar fiskstofnar fara vaxandi. Við munum hafa þá reynslu núna og geta haft getu og vilja til að fullvinna þann afla sem mun veiðast innan efnahagslögsögunnar sem og utan. Við munum hafa þá reynslu sem við höfum aflað okkur síðustu tíu árin eða svo með úthafsveiði og af þeim atriðum sem ég nefndi hér að framan.

Að þessu sögðu hlýtur að vera full ástæða til bjartsýni hvað varðar fiskveiðar, fiskvinnslu og þá um leið efnahagslíf okkar nú á næstu árum. En vissulega er okkur nokkur vandi á höndum. Það er alltaf vandi að stíga ný skref. Við erum núna að sumu leyti að breyta um atvinnuhætti. Við erum að færast yfir á annað og breytt atvinnustig en við erum líka að feta okkur inn á alþjóðlega samkeppni og inn á alþjóðleg veiðisvæði. Þar eru hagsmunir ólíkir. Þar af leiðandi kemur upp vandi. Hagsmunir eru ólíkir þjóða í millum eins og við höfum séð í erfiðum samningum Íslendinga við Norðmenn, Rússa og fleiri þjóðir á þeim hafsvæðum sem um er að ræða. En hagsmunir eru líka ólíkir hér innan lands eins og kom fram í máli hæstv. sjútvrh. og eins og fram kemur í þeirri staðreynd að einungis formaður þeirrar ágætu nefndar sem lagði í rauninni þetta frv. til, vann það fyrir hæstv. sjútvrh., skrifaði þar undir. Ég hygg að það breyti í rauninni engu um niðurstöðuna því aldrei hefði fullkomin samstaða náðst um hvaða leiðir skyldi fara, svo ólíkir eru þessir hagsmunir.

[10:30]

Hagsmunirnir koma til af því að það eru margir aðilar innan lands sem erlendis sem koma að. Vandinn byggist e.t.v. fyrst og fremst á því hvar má veiða. Við erum aðallega að ræða þar um fjögur hafsvæði. Það er Reykjaneshryggur og á Alþingi og í fjölmiðlum hefur einmitt verið greint frá þeim vandasömu samningum sem hafa átt sér stað þar og stóra atriðið að samningar hafa náðst.

Eins og fram kom í máli hæstv. sjútvrh. erum við einnig að ræða svonefnda síldarsmugu, jafnteygjanleg og hún er, þ.e. norsk-íslenska síldarstofninn. Ég held að það sé rétt að við gerum okkur grein fyrir því að hefðu ekki náðst samningar værum við að stefna uppbyggingu norsk-íslenska síldarstofnsins í hættu og engin þjóð á jafnmikilla hagsmuna að gæta um að sá stofn stækki og við Íslendingar. Því stærri og eldri sem stofninn er því meiri líkur á að hann gangi inn í íslenska efnahagslögsögu. Þar að auki má nefna að vinnulag Íslendinga í þeim samningum mun örugglega styrkja þá í þeim samningum sem við eigum enn eftir að ná um Smuguna í Barentshafi.

Að lokum má svo nefna Flæmska hattinn. Þegar samningum við grannþjóðir okkar hefur verið náð er rökrétt næsta spurning: Hver má veiða og hvernig? Eigum við að gefa veiðar þarna algjörlega frjálsar, viljum við hafa stjórn á þessum veiðum og þá hvernig stjórn? Þar koma líka ýmis ólík sjónarmið til eins og hæstv. sjútvrh. kynnti hér. Hvað með frumherjaréttinn? Okkur ber að virða það áræði og þann kjark og þann kostnað sem útgerðir og sjómenn sýndu við að leita nýrra miða í þeim þrengingum sem gengu yfir þjóðina á síðustu árum. Karfaveiðar á Reykjaneshrygg voru ekkert sjálfgefnar. Menn þurftu að leita að stofnum og menn þurftu jafnframt að þróa með ærnum tilkostnaði aðferðir til að veiða karfann á Reykjaneshrygg. Það er réttur sem ber auðvitað að hafa í huga og frv. tekur mið af því.

Við þurfum líka að hafa í huga að bátafloti okkar, þ.e. hinir hefðbundnu vertíðarbátar og ísfisktogarar, hefur átt óbeinan þátt í að úthafsveiði okkar Íslendinga hefur getað farið fram með því að mörg úthafsveiðiskip, útgerðir þeirra, hafa leigt til bátaflotans og þar með treyst grundvöll sinn til þess að geta farið í óvissu á fjarlægari mið. Að auki má hafa í huga að hinn hefðbundni bátafloti á aldrei möguleika á því að sækja á fjarlægari mið á alþjóðlegu hafsvæði. Þar koma hagsmunir sem ber einnig að hafa í huga. Með öðrum orðum við hvert það skref sem við stígum í fiskveiðum okkar og fiskvinnslu þá þurfum við að skoða flotann okkar í heild sinni en ekki einungis einn afmarkaðan bás þess eða skoða þetta út um kýraugu sérhagsmunanna.

Ég tel að frv., sem hér liggur fyrir, sé tilraun til að koma á festu og vinnuramma utan um það umhverfi sem við höfum verið að sækja á og eigum eftir að sækja í vaxandi mæli. Ég tel afskaplega mikilvægt fyrir okkur sem ábyrga þjóð að sýna þá festu að við viljum setja lagaramma og taka þar með ábyrga afstöðu og taka af ábyrgð á þeim samningum sem við höfum skuldbundið okkur til á alþjóðlegu hafsvæði. Sú staðreynd mun skapa okkur enn frekari sóknarfæri á því sviði. En við megum ekki láta þar staðar numið. Ég hygg að það sé alveg ljóst að verði frv. þetta að lögum muni reynslan sýna innan einhverra ára að frv. þarf endurskoðunar við. Við því er ekkert að segja, það eru eðlilegir hlutir því við erum að stíga að sumu leyti út í óvissuna. Meginatriðið er að setja okkur þann lagaramma sem sýnir að Íslendingar eru viljugir til að mæta þessum nýju svæðum af ábyrgð og festu. En við megum samt ekki láta staðar numið. Við megum ekki láta þá velgengni blinda okkur sýn sem nú um hríð einkennir íslenskt efnahagslíf, ekki síst í fiskvinnslu og veiðum. Við megum ekki falla í sömu gryfju og við vorum í á meðan fiskveiðar voru nægar og áhyggjulausar hér um margra ára skeið. Við þurfum að halda sókninni áfram. Ég bendi sérstaklega á að eitt mikilvægasta verkefni fyrir okkur á þessu sviði er að efla sérstaklega tengsl okkar við Grænlendinga því að engar tvær þjóðir hafa meiri hagsmuna að gæta hvað varðar Reykjaneshrygginn en Grænlendingar og Íslendingar. Þar hljóta að vera mikil sóknarfæri og mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að efla til muna samstarf okkar við Grænlendinga. Ég tel reyndar að við höfum misst af ákveðnum sóknarfærum með því að hafa ekki tekist að ná fullu samkomulagi við Grænlendinga. Þetta er atriði sem við þurfum að hyggja vel að.

Ég bendi jafnframt á að þegar við tölum um veiðar á Reykjaneshrygg þá erum við aðeins að tala um örlítið brot af því mikla hafsvæði sem Reykjaneshryggurinn er. Við erum aðeins að tala um karfaveiðar. En ég vek athygli á því að Reykjaneshryggurinn, það gífurlega mikla hafsvæði, hefur nánast ekkert verið kannað. Má segja að það sé í rauninni af tilviljun sem við höfum fundið þar þennan gífurlega stóra karfastofn sem við vitum þó ekki einu sinni hversu stór er. En það er mikilvægt fyrir okkur að láta ekki deigan síga og halda áfram að kanna þetta hafsvæði með skipulögðum rannsóknum þar sem einstakar útgerðir og hið opinbera þurfa að koma að. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur því þar tel ég vera eitt mesta sóknarfærið fyrir Íslendinga á alþjóðlegu hafsvæði.

Ég nefni líka stöðu Íslands í Norður-Atlantshafi nú þegar veiðar ýmissa þjóða eru að aukast jafnmikið og raun ber vitni, hér á Reykjaneshrygg, við Grænland og þannig má áfram telja. Það er alveg ljóst að Ísland á að geta og mun ugglaust ef rétt er á haldið gegna lykilhlutverki í þjónustu og dreifingu á fiski og jafnvel fullvinnslu á fiski, m.a. vegna stöðu okkar gagnvart þessum miðum sem hér hafa verið nefnd og vegna stöðu okkar milli Evrópu, Ameríku og flugsins til Asíu.

En það sem mest er um vert, herra forseti, er að þjóðin haldi reisn sinni og sýni á alþjóðavettvangi að hún er reiðubúin að axla ábyrgð, hún er reiðubúin að sækja fram, gera alþjóðasamninga og standa við þá á grundvelli laga, vinnureglna sem þetta frv. er óneitanlega. Því hlýt ég að láta í ljós þá von að frv. megi renna nokkuð hratt í gegnum þingið því að hróður Íslands er í veði.