Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 12:42:15 (6242)

1996-05-18 12:42:15# 120. lþ. 141.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[12:42]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta frv. sem við erum að ræða sé eitt hið brýnasta mál sem við stöndum frammi fyrir. Vandinn sem við er að glíma varðandi snjóflóðavarnirnar er gríðarlega mikill. Hann snertir íbúa ýmissa byggðarlaga og snertir auðvitað afkomu sveitarfélaganna sjálfra. Þetta er með öðrum orðum mál sem þolir ekki mikla bið og þess vegna er nauðsynlegt að þetta frv. sé flutt. Ég vil sérstaklega varðandi orð hv. þm. Péturs Blöndals segja að hér er í raun og veru verið að auka möguleikana á því að bæta forvarnirnar og draga úr hættu, ekki bara fyrir fólkið sem auðvitað er grundvallaratriði, heldur líka það að með því að forvarnirnar séu auknar er verið að reyna að koma í veg fyrir slys og tjón sem væntanlega mun á komandi árum draga úr útgjaldaþörf Viðlagatryggingar og lækka þar með þegar til lengri tíma er litið útgjöld heimilanna. Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að ræða hv. þm., sem sumpart var þó athyglisverð, hafi líka verið á misskilningi byggð. Það sem hér er með öðrum orðum verið að leggja til er að reyna að koma í veg fyrir tjón þegar til lengri tíma er litið og draga þar með úr þeirri framtíðarskattlagningu sem ella hefði komið til. Þannig að ég tel, virðulegi forseti, að þessi umræða hafi á suman hátt verið á misskilningi byggð.