Umgengni um nytjastofna sjávar

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 13:58:57 (6257)

1996-05-18 13:58:57# 120. lþ. 141.3 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[13:58]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefði verið betra að hv. þm. hefði haft þessa afstöðu þegar hann sat í nefndinni um fjármagnstekjuskattinn að betra hefði verið að skoða afleiðingarnar áður en hugmyndirnar voru settar fram. Hins vegar hefur hv. þm. auðheyrilega lært af því og tileinkað sér ný vinnubrögð. Það er auðvitað alveg ljóst að hugmyndin hefur verið svo mikið rætt bæði í sjútvn. og meðal sjómanna og útvegsmanna að menn eru reiðubúnir til að gera þá tilraun að leysa málið með þeim hætti sem hv. þm. hefur lagt hugmynd sína fram um. Ég tel í ljósi þeirrar umræðu sé ekkert við það að athuga að við sjáum hvaða niðurstaða verður af þeirri framkvæmd sem hér er lögð til. Útvegurinn og sjómenn eru reiðubúnir til að reyna þetta. Þeir hafa ekki það mikið á móti þessum hugmyndum að þeir séu ekki reiðubúnir til að reyna þetta. Margir þeirra eru þessu fylgjandi. Ég tel að málið sé svo miklu verra ef gera á þá tilraun sem gerð er í frv. um lausn málsins, þ.e. að beita lögregluvaldi og eftirlitsvaldi og knýja menn raunverulega til þess að gera upp á milli þess að hlýða lögum og þar með að missa veiðileyfi eða hlýða lögum ekki og halda veiðileyfi sínu. Ég held að reynslan sem menn eru þar að gera upp á milli um, annaðhvort á þessari lausn eða þeirri sem í frv. felst, muni sýna svo ekki verður um villst að hugmynd hv. þm. er betri en leið frv. Ég tel að reynslan muni leiða það í ljós og af því að ég er sannfærður um það lét ég í ljós stuðning við hugmynd hv. þm. og hef flutt hana hér í tillöguformi.