Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 17:09:07 (6280)

1996-05-20 17:09:07# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[17:09]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þegar ég las þessa um margt svo athyglisverðu skýrslu, þá vöknuðu hjá mér ýmsar spurningar og fyrst þessi: Er sá vandi sem við erum að glíma við í fíkniefnamálum og ofbeldismálum í okkar samfélagi í raun meiri en hann var t.d. á 19. öldinni? Á 19. öldinni var áfengisdrykkja skilgreind sem mikið þjóðfélagsvandamál, reyndar um allan hinn vestræna heim, og það kallaði á stofnun mikillar félagshreyfingar fólks sem sameinaðist í baráttu gegn þeim vágesti. Það má líka minnast þess að í kringum síðustu aldamót og á fyrstu áratugum þessarar aldar var aðgengi að ópíum og ópíumdropum afar auðvelt án þess að menn færu að skilgreina það sem einhvern sérsakan vanda þó að menn áttuðu sig á því síðar hversu hættuleg efni þarna voru á ferð. Við megum því auðvitað alltaf vara okkur á því að draga ekki upp of dökka mynd. Ég minnist þess í umræðum sem áttu sér stað í fyrravetur um ofbeldi í samfélaginu, þá lagði lögreglan mikla áherslu á það í sínum upplýsingum að þetta væri vandmeðfarið vegna þess að menn verða að miða við fjölgun t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu og þegar hún væri skoðuð eins og reyndar kemur fram í skýrslunni, þá væri ekki um mikla fjölgun á ofbeldisglæpum að ræða, jafnvel miklu minni en við mætti búast. Þetta mál er því vandmeðfarið og þar kemur reyndar að því sem ég vil gera að meginefni míns máls og það er hvað það er augljóst af þessari skýrslu hve okkur skortir upplýsingar á þessu sviði og rannsóknir.

Ég vil leggja það til, hæstv. forseti, að þegar við erum að horfa á forvarnir og fræðslu, þá byrjum við á því að efla rannsóknir, reynum að skoða hver er vandinn í raun og veru og í framhaldi af því að finna leiðir til þess að taka á honum. Það er sem sagt spurning um það að greina vandann, greina það hverjir eru í áhættuhópum og hverjar eru félagslegar aðstæður unglinga. Er hægt að sjá eitthvert mynstur í okkar samfélagi sem leiðir ungt fólk út í neyslu fíkniefna? Það vekur reyndar athygli mína hversu margir það eru yfir þrítugt sem koma nálægt þessum fíkniefnamálum. Það vekur auðvitað líka athygli hversu miklir peningar eru þarna í spilinu og einnig það sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðradóttur og er auðvitað ein meginspurningin þegar við erum að fást við þennan vanda, þ.e.: Er það leið að herða refsingar? Eru refsingar og réttara sagt, dómsmferð, þeir dómar sem hér eru felldir, eru þeir svo vægir að mönnum finnist það hreinlega borga sig að taka út sinn þriggja mánaða dóm eða kannski örlítið lengri og halda svo áfram vegna þess hversu gríðarlega mikill gróðinn er?

Hæstv. forseti. Það sem skiptir mestu máli til þess að ná tökum á þessum vanda er í fyrsta lagi að greina hann og síðan að skipuleggja forvarnir og fræðslu. En það þarf líka að auka samstarf við almenning, efla löggæslu og að vega það og meta hvort ástæða er til þess að þyngja refsingar eða kannski ekki síst að fræða dómara og þá sem koma nálægt þessum málum um það hversu alvarleg mál eru hér á ferðinni. Við hljótum að spyrja okkur: Hvers vegna eru dómar hér á landi svona vægir? Er þar um einhvers konar vanþekkingu að ræða? En þá kemur á móti spurningin: Hafa þeir eitthvert forvarnagildi? Koma þeir nokkuð í veg fyrir þennan mikla vanda?