Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 18:42:39 (6299)

1996-05-20 18:42:39# 120. lþ. 142.11 fundur 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, Frsm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[18:42]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 982 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 54 frá 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum frá sjútvn.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um þetta mál og fékk m.a. á fund sinn Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra í sjútvrn. Þá komu Kristján Ragnarsson og Eiríkur Tómasson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Umsagnir bárust frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hafrannsóknastofnun, Íslenskum sjávarafurðum, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Sjómannasambandi Íslands og Vélstjórafélagi Íslands.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með tveimur breytingum sem fluttar eru í nefndarálitinu, þ.e. í 1. gr. komi í stað orðsins ,,auðlindir`` orðið: nytjastofnar. Þetta varðar breytingu til samræmis við nýsamþykkt lög um umgengni um nytjastofna sjávar sem nú heita svo en frv. var upphaflega lagt fram undir heitinu frumvarp til laga um umgengni um auðlindir sjávar.

Þannig háttar til að í frv. þessu um ákvæði um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum er vísað í áðurnefnd nýsamþykkt lög um umgengni um nytjastofna sjávar og gilda efnisreglur þeirra laga varðandi kvaðir á vinnsluskipum um úrgang sem til fellur við vinnsluna.

Seinni töluliður breytingartillagnanna er við 2. málsl. 1. efnismgr. 4. gr. Hann hljóðar svo í frv.:

,,Sama gildir verði það mikil breyting í áhöfn fullvinnsluskips, eða útgerðarháttum þess, að ástæða sé til að ætla að það hafi veruleg áhrif á vinnslu um borð í skipinu.`` Hér er vísað til þeirra tilvika þegar eftirlitsmaður er um borð í veiðskipi fyrst eftir að það fær vinnsluleyfi og sagt að sama skuli gilda ef slík breyting verður á áhöfn eða útgerðarháttum að ástæða þyki til. Sjútvn. leggur til að á þessu verði gerð svofelld orðalagsbreyting og þetta hljóði svo:

,,Sama gildir verði það mikil breyting í áhöfn fullvinnsluskips, útgerðarháttum þess eða búnaði að ástæða sé til að ætla að það hafi veruleg áhrif á vinnslu um borð í skipinu.``

[18:45]

Það þótti sem sagt rétt að taka þarna inn orðið ,,búnað`` því ljóst má vera að einn af þeim þáttum sem gjörbreytt geta aðstæðum til vinnslu um borð í skipunum er nýr búnaður af einhverju tagi sem m.a. gæti tengst breyttri vinnslu. Hugsunin er fyrst og fremst sú að ákvæðin um eftirlitsmenn um borð geti orðið virk verði einhverjar þær breytingar á vinnslunni um borð sem leitt geti af sér nýjar aðstæður sem ástæða sé til að hafa eftirlit með. Hér er það auðvitað fyrst og fremst nýtingarhlutfallið sem menn hafa í huga vegna þess að nýting vinnsluskipanna á sínum aflaheimildum byggir á tilteknum nýtingarstuðlum sem eru nánast einstaklingsbundnir eða persónulega bundnir við hvert vinnsluskip ef svo má að orði komast. Með því er auðvitað nauðsynlegt að fylgjast að þar séu ekki að verða neinar breytingar á sem skekkja þetta fína kerfi.

Síðan urðu nokkrar umræður í nefndinni um 2. mgr. 2. gr. en þar er kveðið á um að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að um borð í fullvinnsluskipum skuli vera sjálfvirkur tækjabúnaður sem tryggi nákvæma vigtun og skráningu innvegins afla. En slíkur búnaður hefur ekki verið fullþróaður. Hann er ekki fyrir hendi að okkur var tjáð, a.m.k. ekki þannig að menn hafi ráðist í að setja hann upp. Sjútvn. telur ástæðu til að leggja á það áherslu að þessi heimild verði ekki nýtt fyrr en fullnægjandi tækjabúnaður hefur verið þróaður og aðstæður eru orðnar þannig að það sé unnt að koma honum fyrir um borð í skipunum án umtalsverðs kostnaðar þannig að hann falli eðlilega inn í þá vinnslurás sem þar er, með öðrum orðum að undirstrika að þessi heimild verði nýtt hófsamlega þó að út af fyrir sig sé ekki ástæða til að ætla að neitt annað standi til. Forsvarsmenn útgerðarmanna höfðu af þessu ákvæði nokkrar áhyggjur. Þeir töldu það óþarft og óskuðu eftir því að það yrði fellt brott úr frv. En niðurstaða sjútvn. er samt að leggja til að það haldi sér vegna þess að því er ekki að neita að komi slíkur búnaður til sögunnar, verði hann þróaður þannig að hann verði sem sagt sæmilega viðráðanlegur hvað kostnað snertir og auðveldur í uppsetningu, þá væru því samfara miklir kostir að geta þannig sjálfvirkt fylgst með og skráð innveginn afla í skipið. Það yrði þá nothæf viðmiðun til eftirlits og útreiknings á því hvernig hvert og eitt skip væri að nýta sínar aflaheimildir. Þá þyrfti ekki eingöngu að styðjast við og jafnvel alls ekki það flókna fyrirkomulag, nýtingarstuðla, sem nú er notað til þess að umreikna landaðan afla vinnsluskipanna yfir í veiddan fisk.

Þá viljum við að lokum taka fram, vegna annarrar athugasemdar sem sjútvn. barst út af þessu máli, að með þessu frv. stendur ekki til að gera neina breytingu á því fyrirkomulagi sem gilt hefur gagnvart smábátum. Menn höfðu af því áhyggjur á sínum tíma þegar fullvinnsluskipalögin voru sett 1992, að hugsanlega gætu ákvæði þeirra tekið til tilvika þegar smábátar eru að fletja fisk og salta um borð og þeir teldust í þeim skilningi vinnsluskip eða verksmiðjutogarar. En það var aldrei ætlunin og er ekki frekar nú en var þá. Það var tekið fram á sínum tíma við afgreiðslu málsins 1992 að ekki stæði til að breyta neitt högum minnstu skipanna sem kynnu í þessum skilningi að stunda tiltekna vinnslu um borð sem oftast og sjálfsagt alltaf er þá undanfari frekari vinnslu í landi. Sjútvn. telur rétt að undirstrika að það er áfram óbreyttur skilningur hennar á þessum lögum og þó þetta frv. verði afgreitt, að ekki sé með því hróflað við stöðu smábátanna, að þeir skuli ekki teljast fullvinnsluskip í skilningi laganna. Í því sambandi má einnig vísa í reglugerð nr. 304/1992, sem gefin var út í kjölfar laganna um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum frá 1992 og undanþiggur smábáta.

Undir þetta skrifa svo allir viðstaddir nefndarmenn í sjútvn. Ágúst Einarsson sem sat fund sjútvn. sem áheyrnarfulltrúi var einnig samþykkur áliti þessu.