Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 23:50:25 (6328)

1996-05-20 23:50:25# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[23:50]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað aðalatriði sem hv. þm. kom að síðast, þ.e. þessi takmörkuðu gæði sem við höfum úr að spila. Vissulega höfum við of litla fjármuni til að byggja upp samgöngukerfið. Engu að síður hefur það nú verið þannig á síðasta kjörtímabili og vonandi tekst að halda því nokkuð til haga á þessu sem nú er hafið, að framkvæmdir í samgöngumálum og þá sérstaklega hafna- og vegamálum hafa verið með því allra mesta sem hefur gerst.

Mér þóttu undirtektir hv. þm. mjög athyglisverðar vegna þess sem hann sagði, þ.e. að það þarf auðvitað að líta á samgöngufjárveitingarnar og framlögin og framkvæmdirnar heildstætt þannig að reynt sé að vega saman framlög til vega-, hafna- og flugmála. Ég held að þegar við lítum á framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og hið næsta höfuðborgarsvæðinu þá fari ekkert milli mála að vegna þeirra breytinga sem hv. þm. viðurkenndi að hefði orðið á flutningatækni og áherslum í flutningum á sjó og landi, er eðlilegt að aukin áhersla sé lögð á uppbyggingu vegakerfis þar sem mesta álagið er. Þar nefni ég aftur hið ágæta kjördæmi, Vesturl. Sérstaklega eru miklir fiskflutningar út um allar jarðir á Snæfellsnesi að og frá sem hefur leitt til þess að álagið á vegakerfið þar hefur orðið mjög mikið. En ég fagna þeim undirtektum sem hv. þm. sýndi hér og ég heyri að við erum býsna sammála.