Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 23:52:45 (6329)

1996-05-20 23:52:45# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[23:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er meginvandinn. Um það getum við örugglega öll orðið sammála hérna að við vildum hafa meiri fjármuni í þetta. Við erum einu sinni fámenn þjóð í stóru landi og verkefnin eru ærin. En mín skoðun er eindregið sú að við eigum ekkert val. Við verðum að byggja upp þróað samgöngukerfi sem stenst nútímakröfur ef við eigum að geta bætt hér lífskjörin og horft sæmilega hnarreist til framtíðarinnar. Án þess verður hún ekki beysin framtíðin sem við búum okkur hér í landinu, a.m.k. ekki í stórum hlutum þess. Ef við ekki getum byggt upp þróað og rekið nútímalegt samgöngu- og fjarskiptakerfi þá verðum við ekki þátttakendur í tæknisamfélagi 21. aldarinnar, það er alveg á hreinu, ekki með mannsæmandi lífskjörum. Það er þvílík undirstaða alls sem maður sér í þeim efnum að hafa samgöngurnar og fjarskiptin þannig að þau geti verið grundvöllur atvinnustarfsemi og mannlegra samskipta eins og þau blasa við okkur á komandi tímum. Við munum ekki ná að byggja hér upp farsælt velmegunarþjóðfélag á næstu öld nema við leggjum vel í þennan málaflokk. Það er alveg öruggt mál. Ég held líka að við megum heldur ekki vorkenna sjálfum okkur um of. Vissulega eru verkefnin mörg og vandi ríkisfjármálanna mikill en þjóðin var enn þá fátækari þegar hún lét ekki standa fyrir sér að lyfta grettistökum eins og t.d. að byggja Ölfusárbrú eða reisa Alþýðuskólann eða hvað það nú var. Úr því að það var hægt þá þá hljótum við að geta þetta núna.

Að lokum, þá tók ég það einmitt fram í minni ræðu áður en hv. þm. fór í andsvör, að ég teldi tvö svæði í landinu vera alveg sérstaklega í þörf fyrir átak vegna þessara breyttu samgöngu- og flutningahátta, þ.e. vestanvert landið, hluti af Vesturl. og Vestf. sem þurfa að tengjast inn á meginþjóðvegakerfi landsins og það er strandlengjan á norðausturhorninu. Þessir tveir landshlutar standa algjörlega upp úr hvað varðar langt malarvegakerfi sem ekki hefur burðarþol eða er í ástandi til þess að taka við þessum miklu flutningum sem á það eru þó komnir. Þeir eru að hverfa ofan í jörðina eða spýtast úr um allar mýrar þessir svokölluðu vegir á norðausturhorninu og á Vesturl.