1996-05-21 00:09:39# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[24:09]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur orðið framhald á kveinstöfum vegna frestunar á vegaframkvæmdum hér á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þm. las upp úr grein eftir borgarfulltrúa Sjálfstfl. í Reykjavík, Gunnar Jóhann Birgisson, sem sannar einmitt allan þann málflutning sem ég hafði við hér í upphafi þessarar umræðu. Í máli Gunnars Jóhanns Birgissonar koma fram tölur, hlutfallstölur, um framlög til vegamála hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessar tölur leiða einmitt í ljós það sem ég var að reyna að halda fram hér í upphafi þessarar umræðu að framlögin til höfuðborgarsvæðisins hafa verið að vaxa ár frá ári hægt og örugglega frá því að vera 4,8% af heildarframlögum til nýrra þjóðvega á árinu 1986 upp í það að vera 32,8%. Við sjáum hér í hnotskurn einmitt í þessari umræddu grein Gunnars Jóhanns Birgissonar hvernig þessi framlög hafa verið að vaxa gagnstætt því sem hér hefur verið haldið fram af ýmsum talsmönnum fyrr í kvöld.

Það er augljóst að það eru gríðarlega mörg verkefni sem blasa við í vegamálum í landinu. Ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu. Hér hefur gríðarlega margt verið gert og hér standa menn mikið betur að vígi en víðast hvar út um landið þar sem svo háttar til, eins og fram kom í hinni dramatísku lýsingu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þar sem menn fá nánast heilu vegina yfir bílana þegar þannig viðrar. Menn verða að reyna að sýna örlitla víðsýni og horfa víðar um en bara næst sér eins og mér fannst koma fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur sem var veikur endurómur af því sem við heyrðum hér fyrr í umræðunni.