Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 14:44:45 (6345)

1996-05-21 14:44:45# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[14:44]

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Það var unnið af miklum heilindum í félmn. að þessu máli, bæði stjórnarandstaða og stjórnarsinnar. Ég vil líka taka undir og undirstrika það sem kom fram að breytingartillögur voru margar og til bóta. Frv. skánaði til muna eins og hv. þm. sagði.

Í þessu sambandi má minna á furðulegar yfirlýsingar stéttarfélaganna sem birtast m.a. á baksíðu Morgunblaðsins 14. maí. Þar segir talsmaður ASÍ að ekki hafi verið komið á neinn hátt til móts við sjónarmið stéttarfélaga. Þetta er alrangt og það staðfesti hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir einmitt í sinni ræðu.

Mig langaði til að leiðrétta eitt atriði sem kom fram hjá hv. þm. Það er varðandi Lagastofnun Háskóla Íslands. Það er ekki rétt sem mér heyrðist hv. þm. segja að stjórnarandstaðan hafi beðið um þetta álit. Það er heldur ekki rétt sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir lét liggja að fyrr í umræðunni að stjórnarmeirihlutinn hefði beðið um þetta álit. Það er heldur ekki rétt. Hið sanna er að félmn. öll bað um þetta álit Lagastofnunar Háskóla Íslands. Þetta var rætt í nefndinni og ég og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sömdum textann að beiðni til Lagasofnunar Háskóla Íslands og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir skrifaði undir það bréf sem fór til Lagastofnunar sem formaður félmn. Þetta var hvorki beiðni frá stjórnarandstöðu né stjórnarmeirihluta. Þetta var sameiginleg beiðni. Ég vil að það sé alveg skýrt.