Stéttarfélög og vinnudeilur

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 12:04:07 (6419)

1996-05-22 12:04:07# 120. lþ. 144.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[12:04]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í þingsögu síðustu ára eru nokkur mál sem standa upp úr eða málaflokkar sem hafa vakið meiri deilur en annað í þessari stofnun. Eitt af þeim málum þekkir t.d. hæstv. félmrh. mjög vel. Það er spurningin um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Það voru mjög miklar umræður í þessari stofnun og menn ræddu það mjög ítarlega og þáv. stjórnarflokkar kölluðu það málþóf eins og gengur.

Nú hef ég látið kanna það á skrifstofu Alþingis hvernig umræðan hefur þróast um þau mál sem hér eru til meðferðar. Ég tel að þau séu samferða. Það er annars vegar frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hins vegar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Það kemur í ljós að umræðan um þessi mál samtals er einhver sú mesta sem sögur fara af um langt árabil í þessari stofnun. Það er kannski sérstaklega umhugsunarvert í samanburði við EES-málið að stjórnarandstaðan núna er mikið fáliðaðri en hún var á síðasta kjörtímabili. Það munaði um Framsfl. í stjórnarandstöðunni, því verður ekki neitað.

Núna liggur þetta hins vegar þannig að umræðan um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, tvær umræður, hefur staðið í 46 klukkustundir og umræðan um stéttarfélög og vinnudeilur hefur núna staðið í um það bil 33 klukkustundir. Samtals er um að ræða umræðu sem hefur staðið í um 80 klukkustundir um þessi mál. Þetta sýnir ekkert annað en það að þingmönnum stjórnarandstöðunnar er mikið niðri fyrir og þeir telja ástæðu til að gera allt sem þeir geta og í þeirra valdi stendur til þess að breyta frumvörpunum og til þess að koma þeim út úr þinginu.

Ég veit að hæstv. félmrh. hefur gert það upp við sig að taka ekki mark á neinu. Hann hefur gert það upp við sig að hlusta ekki á stjórnarandstöðuna. Hann hefur gert það upp við sig að hlusta ekki á verkalýðshreyfinguna. Hann hefur gert það upp við sig að hlusta ekki á útifundi eða samþykktir sem gerðar eru og svarar þeim eins og hann gerði í gær með orðunum: ,,Það verður að hafa það.`` Með leyfi forseta, þetta er orðrétt tilvitnun í síðustu útifundarræðu hæstv. félmrh. ,,Það verður að hafa það.`` Samt höfum við sagt í þessum umræðum, það hefur verið sagt aftur og aftur og aftur: Það frv. sem hér liggur fyrir þýðir ekki aukna launajöfnun. Hæstv. félmrh. segir: ,,Það verður að hafa það.`` Og við höfum sagt aftur og aftur eins og síðasti hv. ræðumaður: Þetta þýðir ekki frið á vinnumarkaði heldur ófrið á vinnumarkaði. Hæstv. félmrh. segir: ,,Það verður að hafa það.`` Við höfum bent á að þessi frv. eins og þau eru og framkvæmd þeirra muni ekki hafa það í för með sér að menn sæki batnandi lífskjör eins fljótt og ella væri, þ.e. ef við stilltum saman strengi þjóðarinnar til að ná þeim. Hæstv. félmrh. hlustar ekki á það. Og hæstv. félmrh. hlustar ekki á þá ábendingu sem fram kom t.d. hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem er í raun og veru mjög alvarlegt umhugsunarefni, að aðferð ríkisstjórnarinnar í sambandi við þessi mál, stéttarfélög og vinnudeilur og réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, stíflar eðlilega umræðu um mál af þessu tagi, umræðu sem þarf að fara fram, málefnalega umræðu, díalóg þar sem tveir eða þrír jafnréttháir aðilar takast á og bera sig saman um málið. Það er því alveg sama hvernig þetta mál er skoðað. Það eru mistök.

Það hefur verið sýnt fram á það í meðferð málsins að í því voru í upphafi alveg ótal beinar villur. Það var sýnt fram á það að frv. bryti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það var sýnt fram á það að frv. bryti í bága við sex alþjóðasáttmála sem Íslendingar hafa verið aðilar að um langan tíma. En hæstv. félmrh. gerir ekkert með það. Það er greinilegt að hæstv. ríkisstjórn ætlar að halda áfram á þessari braut. Við sögðum í upphafi þegar þessar umræður hófust utan dagskrár 20. mars, fyrir réttum tveimur mánuðum: Með þessum vinnubrögðum er verið að slíta sundur friðinn á Alþingi og í þjóðfélaginu líka. Ég held að það liggi alveg fyrir að það var rétt. Það var þannig að með þessu var ríkisstjórnin að slíta sundur friðinn. Hún var að taka í gegnum þingið á aðeins tveimur mánuðum grundvallarlöggjöf um verkalýðshreyfinguna í landinu og burt séð frá öllu öðru er það fráleitt. Með því er Alþingi ofboðið. Löggjöf af þessu tagi hefur oft verið fyrir Alþingi í tvö þing þar sem að menn hafa rækilega farið yfir hlutina. Hér er ákveðið að keyra í gegn þessa grundvallarlöggjöf aðeins á tveimur mánuðum en ekki á tveimur þingum. Þannig kemur líka fram í þessu ekki bara tillitsleysi við stjórnarandstöðuna og verkalýðshreyfinguna heldur tillitsleysi og virðingarleysi við Alþingi. Það er kannski ekki að undra þó að sumum forsetanna a.m.k. sé ofboðið, t.d. þeim sem situr ekki fjarri mér.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa gert allt sem þeir geta til þess að benda ríkisstjórninni á það hvað hún er að gera í þessu máli og það er athyglisvert hve sterk samstaða þeirra hefur verið og viðnám. Atkvæðagreiðsla um þetta mál fer væntanlega fram eftir 2. umr. á fimmtudaginn kemur að óbreyttu, á morgun. Þá geri ég ráð fyrir því að stjórnarflokkarnir dragi þingmennina á atkvæðabásinn, þetta blessað fólk sem hefur ekki látið sjá sig hér í þingsölum. Þá kemur það, atkvæðapeningurinn er það stundum kallað þegar fólk streymir inn samanber orðið búpeningur. Þetta heitir á dönsku stemmekvæg. Það kemur hér inn og greiðir atkvæði og gegnir, stemmekvæg. Það er ömurlegt að sjá þetta góða fólk lenda í þessum ósköpum, en svona er hinn pólitíski veruleiki sem þetta fólk hefur því miður búið sér.

Eftir umræðuna sem hér fer fram núna við 2. umr. og svo 3. umr. um bæði málin, sem er eftir, þá náttúrlega lýkur ekki umræðu um þessi mál. Henni verður vísað út í þjóðfélagið. Hún mun fara fram annars staðar og eins og síðasti ræðumaður og allir sem hér hafa talað hafa bent á þá verða þessi mál á dagskrá í tengslum við næstu kjarasamninga eins og aftur og aftur hefur komið fram af hálfu verkalýðshreyfingarinnar líka, m.a. í því ávarpi sem forseti Alþýðusambandsins flutti við Austurvöll í gær þegar hann sagði: ,,Afgreiðsla þessara mála ef hún verður svona yrði stórslys.`` Það er móðgun við verkalýðshreyfinguna og móðgun við þjóðina að fara með málin eins og hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera. En hún virðist ætla að gera þessa hluti svona og þá hefur það sinn gang á grundvelli úrslita síðustu kosninga. Það hefur sinn gang. En það þýðir ekki það að umræðunni verði lokið. Henni verður bersýnilega haldið áfram úti í þjóðfélaginu þangað til ríkisstjórnin kemst að því fullkeyptu að þetta eru mistök.