Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:03:15 (6439)

1996-05-22 15:03:15# 120. lþ. 145.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:03]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér erum við að ræða um ákaflega viðkvæmt mál og erfitt þar sem það tengist þeim miklu áföllum sem Vestfirðingar urðu fyrir á síðasta vetri. Ég held að það sé einhugur um að það eigi að bæta mönnum það fjárhagslega tjón sem varð. En það er gert með skattahækkun. Þetta er ferli sem við sjáum mjög oft. Það þarf að leysa einhver góð og brýn mál og þá er gripið til þess ráðs að hækka skatta.

Í þetta sinn á að hækka skatta á allt íbúðarhúsnæði í landinu um 400 millj. kr. á ári. Þetta er til viðmiðunar helmingurinn af þeim skatti sem ætlað er að ná inn með fjármagnstekjuskattinum. Bara til að menn sjái stærðargráðuna. Þetta eru um 2.000 kr. á hverja 10 millj. kr. íbúð og kemur til viðbótar alls konar öðrum sköttum og álögum sem hafa verið lagðar á þessar íbúðir. Ég benti á það við 1. umr. að þetta væri ákaflega vafasamt ferli vegna þess að það tekst aldrei aftur að lækka þessa skatta. Þeir eru sífellt hækkaðir og hækkaðir og þetta er að valda mikilli áþján á landslýð.

Ég heyri mjög mikið kvartað undan sköttum og alls konar gjöldum á húseigendur og launamenn yfirleitt. Ég vara við því að taka enn einu sinni upp slíka aðferð í stað þess að leita að málum þar sem hægt er að spara í útgjöldum ríkissjóðs, einhverjum málum þar sem ekki er lengur þörf á að tryggja eða hugsanlega er verið að oftryggja.

Ég sé í þessu máli ákveðna hættu. Í fyrsta lagi á ofanflóðasjóður að greiða 90% af þeim kostnaði sem til fellur við varnir eigna og sveitarfélagið á að borga 10%. Ég spyr: Hversu mikinn hag hefur sveitarfélagið af þeim framkvæmdum sem verða í plássinu? Það fær útsvar og skatta af fyrirtækjum og einstaklingum sem fá vinnu við þessar framkvæmdir og ég hygg að það muni fá fullt upp í þessi 10% sem það greiðir og jafnvel meira. Þetta þarf að skoða því annars kemur hvati fyrir sveitarfélögin til að fara að framkvæma forvarnir sem kannski er ekki alveg þörf á.

Síðan er það svo að eigendum fasteigna sem er verið að verja er ekki ætlað að borga neitt fyrir það að verja sínar eignir á meðan öðrum er þó alla vega gert að borga iðgjald af alls konar tryggingum sem þeir taka til að verja sínar eignir. Þetta finnst mér líka vera nokkuð óeðlilegt.

Við erum að byrja að sjá þann hluta ísjakans sem leynist undir yfirborðinu. Við erum að byrja að sjá hann á Vestfjörðum þar sem menn hafa metið kostnaðinn allt upp í einn og hálfan milljarð í fyrstu atrennu. Síðan vantar Siglufjörð og Neskaupstað þar sem eru ómældar fjárhæðir. Hæstv. ráðherra gat þess í framsögu að kostnaður gæti verið 5--10 milljarðar í heildina. Hann var þó ekki kominn að Selfossi en þar er nefnilega áhætta vegna jarðskjálfta sem er nokkuð fyrirsjáanlegri að því að talið er en áhættan af snjóflóðunum. Ég spyr: Hvert ætla menn að flytja Selfoss? Og hvað kostar það?

Hér er um að ræða mjög stórt mál og ég vil að menn sjái strax hvert stefnir og hvað mikið er hægt að bæta en ekki þannig að það sé byrjað að bæta mjög rausnarlega og myndarlega en síðan þegar vandinn kemur í ljós og málið verður skoðað í heild sinni þá verði reyndin sú að ekki er hægt að bæta. Það er mjög nauðsynlegt að það sé bætt strax eins og menn sjá fyrir sér að bæta allt dæmið.

Það er annað í sambandi við þessar forvarnir sem ætlað er að fara út í á Vestfjörðum að þar virðast öryggiskröfur vera mjög miklar. Mér skilst að þær séu með mesta móti. Spurningin er hvort þjóð sem býr við jafnhættulegt umhverfi og Íslendingar geti sett svona háar öryggiskröfur. Við búum við jarðskjálftahættu og eldgosahættu. Við búum við snjóflóðahættu o.s.frv. Við höfum lifað í þessu landi í þúsund ár við þessa hættu án þess að vera tryggðir sem er svo sem ekkert til eftirbreytni.

Ég vil benda mönnum á að hér er verið að fara út í mjög stórt dæmi og það á að gera enn einu sinni með skattálögum á almenning. Við erum alltaf í öðru orðinu að tala um samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og Íslands á alþjóðlegum vettvangi en inn í það koma að sjálfsögðu allir þeir skattar og kvaðir sem eru á einstaklingum og fyrirtækjum. Þannig að ef við ekki kunnum okkur hóf í skattlagningunni þá munum við stuðla að lægri launum og atvinnuleysi og fólksflótta. Menn þurfa að sjálfsögðu að finna hinn gullna meðalveg í skattheimtunni og menn þurfa að skoða í hverju einstöku máli hvað þarf að bæta, hvað menn ætla að bæta og hvað er sanngjarnt að bæta.

Mér finnst t.d. ekki óeðlilegt að ef það er verið að verja eign einhvers einstaklings eða fyrirtækis að sá sem eignina á taki einhvern lítinn þátt í því að verja hana. Það finnst mér ekki óeðlilegt. Það mun auk þess gera menn kannski kröfuharðari eða það minnkar þá eftirspurnin eftir því að það verði farið að verja. Svo hafa menn að sjálfsögðu verið að tala líka um umhverfisspillingu sem verður af þessum feiknalegu mannvirkjum sem á að byggja og eru nánast skemmd á umhverfinu eins og málið hefur verið dregið upp. En það er svo sem önnur saga.

Ég vil eindregið benda á þessa miklu skattheimtu sem á að fara út í og ég lýsi því yfir að ég get ekki staðið að því að samþykkja slíka skattheimtu án þess að það sé séð fyrir endann á öllu dæminu, hvað það muni kosta og hvort það sé nauðsynlegt að hafa svona miklar öryggiskröfur.