Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:53:59 (6451)

1996-05-22 15:53:59# 120. lþ. 145.8 fundur 527. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál. 15/1996, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þál. þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á eftirtöldum samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum sem gerðir voru í Ósló 6. maí 1996:

1. Bókun um verndun, skynsamlega nýtingu og stjórnun veiða á norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi.

2. Samningi milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu og lögsögu Jan Mayen á árinu 1996.

3. Samningi milli Íslands og Rússlands um veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu á árinu 1996.

Aðilar að bókuninni eru strandríkin fjögur: Ísland, Færeyjar, Noregur og Rússland. Þau skuldbinda sig í bókuninni til að starfa saman að verndun síldarstofnsins, skynsamlegri nýtingu hans og stjórn veiða úr honum í því skyni að tryggja sjálfbæra nýtingu stofnsins til langs tíma.

Samkvæmt lið 2.1. í bókuninni verður heildarafli landanna fjögurra á árinu 1996 1.107 þús. lestir og skiptist hann þannig að í hlut Íslands og Færeyja koma samtals 256 þús. lestir, í hlut Noregs 695 þús. lestir og 156 þús. lestir í hlut Rússlands.

Ísland og Færeyjar höfðu með tvíhliða samningi um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum frá 2. febr. 1996 ákveðið að afli íslenskra skipa á árinu 1996 yrði ekki meiri en 244 þús. lestir og afli færeyskra skipa ekki meiri en 86 þús. lestir. Til samræmis við ákvæði áðurnefndrar bókunar frá 6. maí 1996 um 256 þús. lesta sameiginlegan hámarksafla landanna tveggja var staðfest með orðsendingaskiptum utanríkisráðherra Íslands og lögmanns Færeyja sama dag að hámarksafli íslenskra skipa verði 190 þús. lestir og hámarksafli færeyskra skipa 66 þús. lestir.

Í bókuninni er gert ráð fyrir að aðilar komi sér tvíhliða saman um heimildir til veiða í lögsögu hvers annars og önnur skilyrði fyrir veiðum þar. Samkvæmt áðurnefndum samningi milli Íslands og Færeyja er skipum hvors aðila heimilt að veiða í lögsögu hins á árinu 1996. Samhliða gerð bókunarinnar var gengið frá samningi milli Íslands og Noregs með orðsendingaskiptum sjávarútvegsráðherra ríkjanna. Samkvæmt honum fá íslensk skip ótakmarkaðan aðgang að lögsögunni við Jan Mayen og norsk skip heimild til að veiða allt að 127 þús. lestir í íslenskri lögsögu á árinu 1996 sem litlar líkur eru til að norsk skip muni nýta sér. Jafnframt var gerður samningur milli Íslands og Rússlands þar sem rússneskum skipum er veitt heimild til að veiða allt að 5 þús. lestir á takmörkuðu svæði í austurhluta íslensku lögsögunnar. Gert er ráð fyrir því í tveimur síðastnefndu samningunum að aðilar semji um nánari skilyrði varðandi veiðarnar. Að því er samninginn við Noreg snertir hefur verið gengið frá þessum formsatriðum eins og þingmönnum er kunnugt um en formsatriði sem snúa að Rússlandi eru ófrágengin.

Íslensk stjórnvöld hafa í samningaviðræðunum lagt áherslu á sameiginlega hagsmuni aðila af því að gerðar yrðu ráðstafanir til að ná sem bestri nýtingu síldarinnar. Með ótakmörkuðum aðgangi að lögsögunni við Jan Mayen er líklegt að veiðitími síldarinnar lengist og að síldin verði aðgengileg íslenska flotanum þegar hún hefur náð því fituinnihaldi sem gerir hana eftirsóknarverða til manneldisvinnslu og verðmætari til lýsisvinnslu.

Samkvæmt svonefndu þróunarákvæði bókunarinnar skulu aðilar í viðræðum sínum um skiptingu aflaheimilda á komandi árum taka mið af breytingum sem verða á dreifingu stofnsins. Komið verður á fót vinnuhópi vísindamanna til að fylgjast með og meta þróun og dreifingu stofnsins í þessu skyni. Svo sem kunnugt er hefur síld úr stofninum lítið sem ekkert gengið í íslenska lögsögu fyrr en nú á þessu ári að nokkurt magn hefur gengið inn í lögsöguna en lítillega á síðasta ári en þetta er í fyrsta skipti sem það gerist frá hruni hans í lok 6. áratugarins.

Ef tekst að ná markmiðum samningsins um verndun og uppbyggingu stofnsins og hann gengur í auknum mæli í íslensku lögsöguna er gengið út frá því að aflahlutdeild Íslands muni aukast á komandi árum. Talið er að sá hluti síldarstofnsins sem leitaði á Íslandsmið fyrir hrunið hafi að uppistöðu verið eldri árgangar, sjö ára síld og eldri. Yfirgnæfandi hluti núverandi síldarstofns er hins vegar fjögurra og fimm ára síld. Það eru árgangarnir frá 1991 og 1992. Af þessu má ráða að hagsmunir Íslendinga af því að koma í veg í ofveiði eru sérstaklega brýnir og að markvissar veiðitakmarkanir nú eru forsenda þess að dreifing stofnsins geti orðið eins og áður var.

[16:00]

Í bókuninni eru ákvæði sem snerta hagsmuni strandríkjanna fjögurra við aðra aðila. Samningsaðilar skulu m.a. beita sér fyrir því að ná samkomulagi við aðra um að þeir takmarki sínar veiðar til að koma á heildarstjórn veiða úr stofninum. Hér er fyrst og fremst átt við Evrópusambandið. Fulltrúar strandríkjanna fjögurra hafa þegar gengið á fund fulltrúa Evrópusambandsins og farið þess á leit að samningaviðræður verði hafnar milli aðila. Jafnframt hefur einhliða ákvörðun Evrópusambandsins um 150 þúsund lesta kvóta verið mótmælt.

Tekið er sérstaklega fram í bókuninni að hún hafi ekki fordæmisgildi gagnvart samningum milli aðila í framtíðinni, einkum að því er varðar aflahlutdeild fyrir þetta ár. Bókuninni skal beitt til bráðabirgða frá undirritunardegi hennar. Hún öðlast gildi þegar allir aðilar hafa tilkynnt hver öðrum um að nauðsynlegri málsmeðferð sé lokið í viðkomandi löndum.

Að lokum, herra forseti, vil ég leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn. sem eftir atvikum getur að sjálfsögðu haft samráð við aðrar nefndir um málið og þá sérstaklega hv. sjútvn.