Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 15:14:06 (6561)

1996-05-24 15:14:06# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[15:14]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi var ég að vekja athygli á því að hér skyldu hafa verið lögð fram frumvörp, meira að segja tvö, sem bæði snerta vinnumarkaðinn sem auðgljóslega brutu í bága við alþjóðasamþykktir eins og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem Lagastofnun staðfesti meinbugi á og síðan þetta frv. hér sem að mínum dómi braut í bága við alþjóðasamþykktir áður en 22. gr. var breytt. Að mínum dómi var það fyrst og fremst hún. Ég var reyndar mikið að velta fyrir mér hvort 36. gr. þessa frv. stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi. Ég spurði lögmennina þrjá sérstaklega um það því að þeir tóku þá grein ekki fyrir í sínum álitum. Þeir töldu reyndar að hún stæðist en bentu á að þeirri grein væri ekki fylgt eftir í þessu frv. Eins og hún kemur fyrir þar er hún ekki í samræmi við það sem stendur í stjórnarskránni. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni er ég ekki viss um að eins og frv. lítur út núna sé grundvöllur fyrir kærum vegna þess að það er búið að breyta þessari grein sem málið snerist fyrst og fremst um, 22. gr. þar sem var verið að svipta heilu stéttarfélögin samningsrétti og verkfallsrétti.