Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 17:30:57 (6577)

1996-05-24 17:30:57# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[17:30]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér hafa verið fluttar langar og miklar ræður um þessa lagasmíð og sjálfur hef ég flutt mál mitt í alllöngu og ítarlegu máli við fyrri umræðu og mun ekki hafa þann hátt á nú. Hins vegar vil ég í fáeinum orðum drepa á það sem mér finnst skipta mestu máli.

Nú hillir undir lok umræðu um þetta umdeilda frv., sennilega eitt umdeildasta lagafrv. síðari tíma. Það hillir undir lok þessarar umræðu en þó væri e.t.v. réttara að segja að þessi umræða kunni að vera að hefjast vegna þess að við sjáum ekki enn fyrir endann á þessu máli, hvaða afleiðingar það muni hafa í för með sér.

Ástæðan fyrir því að frv. er umdeilt er ekki aðeins sú að það er illa unnið, heldur hin að með þessum lagabálki er verið að rífa upp með rótum allt réttinda- og kjarasamningskerfi opinberra starfsmanna.

Það hefur verið rauður þráður í máli hæstv. fjmrh. og annarra þeirra sem talað hafa fyrir frv. að leggja áherslu á að lögin séu eitt, kjarasamningar séu annað og þess vegna sé ekki verið að hrófla við kjarasamningsbundnum ákvæðum eða réttindum. Þetta hefur verið rauður þráður í málflutningi hæstv. fjmrh.

Nú er það svo að þessi lög eru í raun endurskoðun á eldri lagagrunni, lögum frá árinu 1954. Það sem einkenndi undirbúning að þeirri lagasmíð var tvennt: Í fyrsta lagi kemur á daginn að lagagerðin átti sér mjög langan aðdraganda, átti sér tíu ára aðdraganda. Annað sem einkenndi þá undirbúningsvinnu var mjög náið samráð við þá sem hlut áttu að máli, þá sem áttu að heyra undir lögin sem á þeim tíma voru heildarsamtök opinberra starfsmanna, BSRB. Síðan hafa komið til sögunnar fleiri heildarsamtök, BHMR og Kennarasamband Íslands auk þess sem þessi lög snerta einnig hag bankastarfsmanna.

En hvers vegna skyldi hafa verið haft svona náið samráð við BSRB, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja? Það kemur fram þegar þingskjöl eru skoðuð frá þessum tíma. Þar kemur fram að ástæðan fyrir því að náið samráð var haft við BSRB var sú að þeir sem kæmu til með að heyra undir lögin voru þeir einstaklingar sem tóku laun og nutu kjara samkvæmt kjarasamningi BSRB. Þetta eru þess vegna ekki ólíkir og óskyldir þættir, kjarasamningarnir annars vegar og lögin hins vegar. Hvort einstaklingarnir heyra undir þessi lög og njóta þeirra kjara og þeirra réttinda sem þau bjóða upp á er háð því hvaða kjarasamningi viðkomandi tekur laun samkvæmt. Samningar og lög eru því af sama meiði. Síðan höfum við sem höfum talað gegn frv. eða þessum einhliða breytingum af hálfu ríkisvaldsins að sjálfsögðu bent á það úr þessum ræðustól að í ráðningarsamningum ríkisstarfsmanna er skírskotað til þessara laga.

Hér er ég, hæstv. forseti, að vekja máls á ákveðnum rökum og ég veiti því athygli að hér eru á tali saman hæstv. fjmrh. og hv. þm. Hjálmar Jónsson og hlýða ekki á þessa röksemdafærslu. Ég mun gera hlé á máli mínu þangað til þeir ljúka sinni samræðu (Gripið fram í.) já, vegna þess að ég gat um það í upphafi að ég ætlaði ekki að hafa hér langt mál. En ég er að koma ákveðnum rökum á framfæri og þingmenn ætlast til þess að hæstv. ráðherrar hlýði á þau rök. (Fjmrh.: Hvar eru allir flokksmenn hv. þm.?) Ég er að ræða við hæstv. fjmrh. sem hefur setið hér gapandi og geispandi og hlæjandi í allan dag og er síðan með dylgjur og ósanngirni í garð annarra þingmanna. (Fjmrh.: Á maður þá að sitja undir svona lestri, forseti?) Ég bíð þá þangað til hæstv. forseti kveður upp sinn úrskurð og rétt skal vera rétt.

(Forseti (GÁ): Ég bið um stillingu í sal og að ræðumaður fái að halda áfram máli sínu.)

(Fjmrh.: Afskapleg ókyrrð er þetta.) Afskapleg ókyrrð, segir hæstv. fjmrh. Við erum að ljúka umræðu og ég gat um það í upphafi máls míns að ég ætlaði að hafa fá orð og koma rökum á framfæri, röksemdafærslu gagnvart þeim málflutningi sem hæstv. fjmrh. hefur haft í frammi. Og hér gerist það aftur eina ferðina enn þegar þingmenn eru að reyna að færa rök fyrir sínu máli að menn sýna þeim þá ókurteisi, hæstv. ráðherrar sýna þeim þá ókurteisi að hlýða ekki á þann málflutning og menn ætla ekki að láta bjóða sér slíkt. (Fjmrh.: Það var hlustað á hv. þm.)

Það sem ég var að segja, hæstv. forseti, er að þær staðhæfingar sem hæstv. fjmrh. hefur sett fram um að kjarasamningar séu eitt, lög séu annað, eiga ekki við rök að styðjast þegar litið er til þingsögunnar og þinggagna frá þeim tíma sem þessi lög eða sá lagagrunnur sem þessi lög hvíla á var smíðaður. Þessi röksemdafærsla stenst ekki.

Síðan er það svo að opinberir starfsmenn fá eiginlegan samningsrétt árið 1962. Eftir þann tíma eiga þeir í stöðugum viðræðum við ríkisvaldið enda þótt þeir nytu ekki fullra réttinda á borð við önnur samtök launafólks svo sem verkfallsréttar. Hann fengu opinberir starfsmenn og þó ekki nema að hluta til, hluti þeirra, árið 1976. En á þessum tíma voru að sjálfsögðu viðræður um kjaramál og samninga og samningaviðræður og það eru til gögn um þessar viðræður. Þar kemur fram að menn eru ítrekað að semja um réttindi sem kveðið er á um í lögum og laun og þá er verið að meta til launa þau réttindi sem menn búa við, á meðal annarra þau réttindi sem verið er að breyta með þessum lagasmíðum.

Ég heyrði það að hæstv. ráðherra sagði einhvern tíma í sínu máli og hefur reyndar margsagt það að hann teldi t.d. biðlaunarétt ekki metinn til launa. Hins vegar kemur það náttúrlega á daginn að sá réttur er það verðmætur að verið er að breyta lögum um biðlaunarétt til að geta einkavætt Póst og síma og allir vita að það liggur á að koma þessum lögum í gegnum þingið til þess að hafa þann rétt af fólkinu, starfsmönnum Pósts og síma. Það vita allir. En engu að síður segja þeir og fullyrða í athugasemdum með þessu frv. og þeir hafa sagt það hver á fætur öðrum, talsmenn hæstv. ríkisstjórnar að það sé ekki verið að breyta þessum rétti. Það eru þessi ósannindi í málflutningi sem eru orðin harla þreytandi.

Hér var í gær hv. þm. stjórnarliðsins að tala um breytingar á Pósti og síma og réttindi starfsmanna. Hann sagði í sínu máli, hv. þm. Einar Guðfinnsson, að það yrði ekki hróflað við lífeyrisréttindum. Það vita allir að þeir sem fá áframhaldandi aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins samkvæmt lögum um þann sjóð á grundvelli þess að starf sé lagt niður, þeir njóta ekki ávinnsluréttar. Og m.a. til þess að bæta mönnum upp réttindamissi af því tagi hafa menn biðlaunarétt sem samkvæmt lagaskýringum Ólafs Jóhannessonar eru lögákveðnar bætur til starfsmanns. Þannig skilgreinir Ólafur heitinn Jóhannesson biðlaunaréttinn, sem bætur vegna réttindamissis.

Reyndar er harla margt undarlegt í þessum lagabreytingum öllum. Annars vegar er verið að taka á þáttum á borð við biðlaun. Það er verið að taka á þáttum á borð við æviráðningu sem að mínu mati á í sumum tilvikum rétt á sér og er æskileg, svo sem hjá löggæslustéttum svo að eitt dæmi sé tekið. Við megum ekki gleyma því hvaða markmið við erum að tala um þó að mönnum hafi tekist að sverta hugtakið. Markmiðið er starfsöryggi. Það er mergurinn málsins. Það er starfsöryggi. Það er hægt að segja hverjum einasta opinbera starfsmanni upp störfum ef hann ekki stendur sig í starfi eða hefur á sig einhverjar ávirðingar. Hins vegar hafa menn tekið þann kostinn víða um heim að tryggja tilteknum starfsstéttum aukna ráðningarfestu eins og t.d. lögreglumönnum sem eru oft að rannsaka viðkvæm sakamál. Það á að vera erfitt að segja slíkum manni upp. Það má ekki vera háð duttlungum yfirmannsins sem hann er hugsanlega að rannsaka, eða einhvern sem honum tengist. Menn mega ekki missa sjónar á markmiðinu og hengja sig í einhver hugtök sem síðan er reynt að sverta og gera tortryggileg og slátra síðan réttindunum á þeim forsendum. Við erum að ræða um markmiðin, ræða um sjálft málefnið.

Eins og ég gat um áðan, þá er kannski það versta við þessa umræðu hversu óheiðarleg hún hefur verið á stundum þegar menn eru að fullyrða að það sé ekki verið að skerða réttindi sem verið er að skerða. Ég nefni t.d. biðlaunaréttinn. Það er verið að skerða hann enda segir í sömu setningunni í athugasemdum með frv. eða í sama paragrafinu, annars vegar að það sé ekki verið að skerða réttindin og hins vegar að það munu sparast miklir fjármunir á þessu. Hvers vegna? Vegna þess að það er verið að hafa peninga af fólki. Þetta er svo líka reynt að réttlæta með málfari sanngirninnar, með orðum sanngirninnar, að hitt og þetta sé ekki sanngjarnt, að menn séu á tvöföldum launum og þannig reynt að slá ryki í augun á fólki.

[17:45]

Það er líka sagt í breytingartillögunum á síðasta plagginu að það geti verið ósanngjarnt í garð starfsmanns ef honum er fyrst tilkynnt um framlengingu á uppsagnarfresti við lok hans. Það er afar ósanngjarnt. Ef duttlungar yfirmannsins bjóða að starfsmaður skuli vera hálft ár lengur í starfi en viðkomandi óskar, er ósanngjarnt að segja það á síðasta degi. Þetta segja menn nútímavæðingarinnar sem eru búnir að setja átthagafjötra á einstaklinga. Það er verið að festa í lög að einstakling sem óskar eftir að segja upp starfi sínu sé hægt að kyrrsetja í hálft ár. --- Ég mun gera hlé á máli mínu þangað til hæstv. fjmrh. kemur aftur í salinn vegna þess að þessum orðum og þessum röksemdum er til hans beint. (Fjmrh.: Það er hlustað á hv. þm. og búið að hlusta á hann í fjóra klukkutíma a.m.k. í þessu máli.) Og hefði betur verið hlustað lengur á hann. Ég sá hins vegar, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. var á tali við annan mann í hliðarsal og rétt skal vera rétt.

Ég er að tala um nútímavæðingu. Ég er að tala um nútímavæðingu hæstv. fjmrh. sem felst í því að setja átthagafjötra á fólk. Það er verið að binda það í lög eina ferðina enn, og munu þeir eflaust segja um þennan þáttinn að þetta séu gömul lög og gömul ákvæði, að ef yfirmanni í stofnun býður svo við að horfa geti hann kyrrsett einstakling í hálft ár. En hver skyldi lagabreytingin sem menn eru að koma fram með nú vera? Jú, það er ósanngjarnt að segja frá því á síðustu dögum, það er ósanngjarnt. Þess vegna á að breyta því.

Hins vegar hefur verið breytt þáttum sem skipta afar miklu máli, mjög miklu máli og vil ég þar nefna 47. gr. Ég get upplýst hæstv. fjmrh. um það, ef það er rétt hjá honum að undirritaður hafi talað í 4--5 tíma um þetta mál, að þeir hefðu sennilega orðið 4--5 í viðbót ef þessi breyting hefði ekki verið gerð. Greinin var alvarleg aðför að lýðræðislegri réttindabaráttu í landinu. En þótt menn hafi tekið orðin ,,minni háttar`` út sem lýsandi fyrir þá hugmyndafræði sem hér er boðuð, stendur hugmyndafræðin eftir, hugmyndafræði hinna meiri háttar manna sem koma fram með frv. einhliða og keyra fram lagabreytingar sem tók forvera þeirra á valdastóli tíu ár að smíða í samráði við launafólkið, enda var um það góð sátt. Sú hugmyndafræði stendur enn óhögguð. Og ég tek undir með hv. þm. Svavari Gestssyni þegar hann spyr: Hvar eru reglurnar sem eiga að setja skorður við duttlungastjórnuninni og ákvörðun yfirmanna um hver skuli njóta ávaxtanna og hverjir ekki? Hvar eru reglurnar? Þær hafa ekki komið fram.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að tala um allar þær skerðingar sem er að finna í þessu frv., allar þær breytingar sem hér er verið að gera í átt til duttlungastjórnunar, draga úr skyldum við að auglýsa störf og þar fram eftir götunum. Ég nefni þetta nánast af handahófi. Ég ætla ekki að fara í þá umræðu vegna þess að ég sagði í upphafi máls míns að ég ætlaði ekki að hafa um þetta langt mál. En í lokin langar mig til að segja þetta:

Hér er verið að lögfesta frv. sem felur í sér alvarlega aðför að lýðræðislegri réttindabaráttu, að samtökum launafólks. Þess vegna segi ég eða spyr öllu heldur: Skyldi þessari umræðu vera að ljúka eða er hún e.t.v. að hefjast?