Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 18:24:08 (6579)

1996-05-24 18:24:08# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[18:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla í stikkorðastíl að nefna örfá atriði af því að ég ætla að reyna að forðast að fara í aðra ræðu.

Í fyrsta lagi tek ég undir með hæstv. fjmrh. að það var mikils virði að kveða niður verðbólguna og ég var hlynntur þeim fyrstu samningum sem kenndir voru við þjóðarsátt. En við megum ekki gleyma því að í skjóli þeirrar óskar og vonar almennings að halda verðbólgunni niðri hefur ríkisstjórnin, sú ríkisstjórn sem síðar sat, og þessi er byrjuð á því sama, skert kaupmátt launafólks á þann hátt sem viðkvæmastur er, með því að taka mörg hundruð milljónir af barnabótum, setja á sjúklingaskatta og þar fram eftir götunum. Verðbólgustigið er ekki sjálfstætt markmið í sjálfu sér, það eru kjörin sem eru sjálfstætt markmið og það eru þau sem ber að bæta.

Í öðru lagi vil ég nefna að það er mjög ósvífið af hálfu hæstv. fjmrh. að segja að það sem hafi vakað fyrir honum með þessum forstjórasamningum sé að draga úr launamun kynjanna. Hæstv. fjmrh. hefur sagt það opinberlega að þar sem best hafi tekist til í þessum efnum hafi 80% eða 90% samninga orðið persónubundnir samningar. Það er ekki til þess fallið að draga úr launamun. Við höfum sýnt fram á það með rökum, skýrslugerðum og athugunum að sú leið sem hann er að leggja til hefur alls staðar orðið til þess að auka launamuninn.

Þá vil ég nefna það sem hæstv. ráðherra segir um einstaklingsbundin kjör, biðlaunin. Það er mikið til í því sem hann segir þar. En það eru kjör sem ber að skoða í heild sinni.

Í fjórða lagi vil ég nefna að í máli hæstv. fjmrh. kemur fram að þetta sé allt saman ósköp slétt og fellt á sama tíma og hér er verið að tala um frv. sem tekur réttindi af fólki, sem hefur kjör af fólki sem verða talin í krónum og aurum. Tekur peninga af fólki, takmarkar samningsrétt og eykur forstjóravald.

Varðandi samráðið að lokum, hæstv. forseti, vil ég nefna þetta: Í nauðvörn sinni hafa þingmenn fengið lögfræðinga til að gera á handahlaupum álitsgerðir sem eru unnar á fáeinum klukkutímum. Á síðustu klukkutímum, síðustu dögum þingsins, kemur fram að við erum að ræða lagafrv. sem skerðir mannréttindi og brýtur í bága við stjórnarskrá og alþjóðlegar samþykktir. Svo er verið að tala um góð og vönduð vinnubrögð og frv. þar sem allt er slétt og fellt. Þetta kemur ekki heim og saman.