Skipulag miðhálendis Íslands

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:02:18 (6623)

1996-05-28 15:02:18# 120. lþ. 149.7 fundur 532. mál: #A skipulag miðhálendis Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að svara þessu í hvaða flokki ég ætti að vera. Kannski fyrirspyrjandi og ég eigum samleið í umhverfismálum þó við séum hvort í sínum pólitíska flokknum.

Ástæða fyrirspurnar minnar til umhvrh. er sú að athygli mín var vakin á stöðu máls varðandi skipulag miðhálendisins, sérstaklega því að þessu 48% hlutfalli Íslands, sem ég hafði talið sem saklaus Íslendingur að allir landsmenn ættu jafnan rétt á og sömu skyldur gagnvart, væri ráðið í rauninni skipulagslega af litlum hluta landsmanna. Þetta kom mér verulega á óvart. Ég fór að kanna málið og það er rétt eins og ráðherra vakti athygli á áðan að héraðsnefndir sem hlut eiga að máli voru samkvæmt lögum 1993 settar í samvinnunefnd til að ráða þessum málum.

Mér finnst skilgreiningin á því hvað það er að eiga hlut að máli ekki blasa við í þessum lögum. Ég tel mig sem Reykvíking eiga hlut að máli gagnvart miðhálendinu ekki síður en aðliggjandi svæði og 48% af landinu komi mér við sem Reykvíkingi ekki síður en öðrum þeim sem búa á landinu. En þannig mun það vera, hæstv. ráðherra, að þeir sem koma ekki að skipulagi hálendisins eru Reykvíkingar, Reyknesingar, Snæfellingar og íbúar Vestfjarða. Mér skilst að aðrir landsmenn eigi aðild að þessu skipulagi.

Hvert er verkefni það sem skipulagsnefnd þessi er að fást við? Það eru þættir eins og samgöngur, orkuveitur, fjarskipti, byggingarmál, náttúruvernd, ferðamál og hefðbundin landbúnaðarafnot.

Spurningin um hverjir eiga Ísland er auðvitað flóknari en svo að hún verði tekin til umfjöllunar í stuttum fyrirspurnatíma en rétt er að benda á grein eftir Sigurð Líndal prófessor og sömuleiðis hefur eftir því sem mér skilst nefnd á vegum forsrn. verið að störfum um nokkurra ára skeið að vinna að þessu máli. En spurningin er kannski sú hvort íslenska þjóðin eigi hálendið eða hver á hálendið? Ég beini því til hæstv. umhvrh. að hann beiti sér fyrir því að skipulag hálendisins verði unnið í sátt við alla íbúa landsins og í samvinnu við þá alla. Svo stórt er málið í mínum huga.