Átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:40:27 (6638)

1996-05-28 15:40:27# 120. lþ. 149.11 fundur 531. mál: #A átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:40]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Mér þóttu svör hæstv. menntmrh. vægast sagt undarleg. Ég hef staðið í þeirri meiningu að það væri hlutverk ráðherrans að sjá til þess að lögum væri framfylgt og ekki síst í þeim stofnunum sem heyra undir ráðuneyti hans og hér eru í gildi jafnréttislög. Hér hefur verið samþykkt jafnréttisáætlun fyrrv. ríkisstjórnar sem sú sem nú situr hefur tekið í arf og það hlýtur að vera hlutverk hæstv. menntmrh. að sjá til þess að lögum og þessari jafnréttisáætlun sé framfylgt.

Þá vil ég einnig minna á að á þingi Sameinuðu þjóðanna í Kína um málefni kvenna var samþykkt framkvæmdaáætlun þar sem er sérstakur kafli um fjölmiðla. Nú hvet ég hæstv. menntmrh. til þess að kynna sér þann kafla rækilega og það hvernig stjórnvöldum og öðrum ber að beita áhrifum sínum á fjölmiðla, jafnt frjálsa sem aðra, til þess að vekja athygli þeirra á mannréttindum og hlutverki fjölmiðla í lýðfrjálsu samfélagi og ég held að hæstv. menntmrh. sé einfaldlega að misskilja hlutverk sitt.