Endurskoðun lögræðislaga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:52:39 (6645)

1996-05-28 15:52:39# 120. lþ. 149.12 fundur 515. mál: #A endurskoðun lögræðislaga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:52]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í lögræðislögum er ekki að finna sérstakt ákvæði um að svipta megi sjúkling sjálfræði vegna læknismeðferðar eða aðgerða sem telja verður nauðsynlegar en viðkomandi er ekki tilbúinn að fallast á eða getur einhverra hluta vegna ekki tjáð sig um. Vel getur hins vegar verið að krafa um sjálfræðissviptingu byggist á framangreindum atriðum með vísun til a-liðar 1. mgr. 3. gr. lögræðislaga, en þar segir að svipta megi mann lögræði ef viðkomandi er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms.

Þótt ekki sé fjallað um framangreint í lögræðislögum er í sérlögum vikið að því að sjálfræðissvipting er nauðsynlegur undanfari tiltekinna aðgerða gegn vilja viðkomandi einstaklings. T.d. má nefna að í lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir er sjálfræðissvipting eða ólögræði sett sem skilyrði fyrir fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð ef viðkomandi einstaklingur er ekki tilbúinn að fallast á umrædda aðgerð eða er ekki fær um að tjá sig um hana. Um fóstureyðingar segir í 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. laganna að sé kona vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða af öðrum ástæðum ófær um að gera sér grein fyrir nauðsyn aðgerðarinnar sé heimilt að veita leyfi til hennar samkvæmt umsókn lögráðamanns. Sams konar ákvæði er að finna varðandi ófrjósemisaðgerðir í 22. gr. laganna. Einstaklingum eru ekki skipaðir lögráðamenn nema þeir hafi verið sviptir lögræði með úrskurði dómara og því er ekki unnt að túlka lögin á annan hátt en þann að sjálfræðissvipting sé nauðsynleg í framangreindum tilvikum. Skilyrði fyrir sjálfræðissviptingu í framangreindum tilvikum er vissulega strangt, ekki síst í ljósi þess að sjálfræðissvipting er samkvæmt núgildandi lögum ótímabundin og öðlast einstaklingur sem sviptur hefur verið sjálfræði það ekki aftur nema með úrskurði dómara. Nefnd sú sem vinnur að endurskoðun lögræðislaga hyggst skila af sér síðar á þessu ári.

Í þeim drögum að frv. til nýrra lögræðislaga sem nú liggur fyrir er gert ráð fyrir því að unnt sé að svipta einstaklinga lögræði tímabundið og öðlist þeir þá lögræði sitt sjálfkrafa á ný að loknum sviptingartímanum. Slíkt úrræði er tvímælalaust vægara úrræði gagnvart viðkomandi einstaklingi en ótímabundin sjálfræðissvipting, en slík tímabundin svipting getur í mörgum tilvikum verið heppilegri kostur en ótímabundinn, með hliðsjón af hagsmunum hins svipta. Tekur það jafnt til fjárræðis- sem sjálfræðissviptingar.