Útskriftir íbúa Kópavogshælis

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 16:11:41 (6653)

1996-05-28 16:11:41# 120. lþ. 149.13 fundur 516. mál: #A útskriftir íbúa Kópavogshælis# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[16:11]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er einmitt mergurinn málsins að það henta ekki endilega öllum sömu úrræði. Fötlunin getur verið svo margvísleg og á svo mismunandi stigum. En það þarf að reyna að skapa hverjum einstaklingi bestu kringumstæður til að lifa lífinu. Því miður sníður náttúrlega tiltækt fjármagn stakkinn. Við því er ekkert að gera. Það er ekki um annað að ræða en að vinna að málunum með því hugarfari að reyna að búa öllum sem þess þurfa viðunandi aðstöðu og helst sem besta. Ég vil reyna að gæta jafnréttis í þessu að því leyti til og mér finnst kannski skorta nokkuð á. Við höfum náð langt með nokkurn hóp að gera honum lífið bærilegra en það eru allt of margir í okkar þjóðfélagi sem ekki fá enn viðhlítandi þjónustu. Ég tel að við þurfum að reyna að gæta þar jafnræðis og reyna að þoka málum áfram. Þetta gerist ekki á einu augnabliki því miður, það tekur sinn tíma. En við skulum ekki missa sjónar á markinu.