Tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:10:17 (6712)

1996-05-29 10:10:17# 120. lþ. 151.91 fundur 322#B tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:10]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið kveður á um að aðilum í eigin ríki svæðisins skuli vera heimilt án takmarkana að fjárfesta í atvinnurekstri í öðru ríki þess. Þegar samningurinn var gerður fékk Ísland tímabundinn frest til þess að laga gildandi reglur um fjárfestingar erlendra aðila á orkusviðinu að samningnum og 15. maí sl. voru samþykkt á hinu háa Alþingi lög þar að lútandi. Það að slík fjárfesting sé heimiluð á ekki að koma þingmönnum, sem tóku þátt í að fjalla um samninginn á sínum tíma, á óvart og þeir sem fylgdust með lagasetningu frv. um erlenda fjárfestingu á heldur ekki að koma þessi breyting á óvart.

Fjárfesting erlendra aðila eins og raunar innlendra aðila á orkusviðinu er háð ýmsum takmörkum. Í því sambandi má nefna að samkvæmt orkulögum þarf Alþingi að heimila virkjanir sem eru stærri en tvö megavött, sveitarfélag hafa forgangsrétt til einkaleyfis til að reka rafveitur og nýti þau ekki þennan rétt fær Rarik hann. Ekkert í samningnum kveður á um að opna skuli fyrir kaup á þessum fyrirtækjum eða þau skuli gerð að hlutafélögum. Í núverandi löggjöf ESB er ekkert sem bannar einkarétt til dreifingar raforku og raunar sér í Frakklandi eitt fyrirtæki um bæði orkudreifingu, orkuvinnslu og orkusölu.

Sú tillaga að hugsanlegri tilskipun ESB sem hér er gerð að umtalsefni á sér langan aðdraganda og á engum að koma á óvart. Árið 1988 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram og birti og kynnti áætlun um að koma á innri markaði með raforku og jarðgas. Áætluninni átti að hrinda í framkvæmd í þremur skrefum. Því fyrsta átti að ljúka árið 1990 þar sem gerð var breyting á áðurnefndri tilskipun varðandi gagnsæi verðlagningar á raforku sem náði ekki til Íslands.

Annað skrefið hófst í ársbyrjun 1992 þegar framkvæmdastjórnin lagði fram tillögu um tilskipun á innri markaði með raforku. Þessi tilskipun hefur enn ekki tekið gildi. Þriðja skrefið átti loks að ganga í gildi í upphafi þessa árs en hefur heldur ekki tekið gildi.

Hornsteinar þeirrar hugsanlegu tillögu sem hér er til umræðu, nái hún fram að ganga, eru:

1. Að afnema einkarétt starfandi orkufyrirtækja sé hann fyrir hendi.

2. Að skilja að vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku a.m.k. í bókhaldi viðkomandi fyrirtækja. Það er ekki gengið lengra í að gera kröfu um en að þessir þrír þættir séu aðskildir í bókhaldi viðkomandi fyrirtækja.

3. Takmarkaður aðgangur þriðja aðila að flutningskerfum þannig að þeir orkukaupendur sem fullnægja tilteknum skilyrðum sem hvert ríki fyrir sig ákveður geta gert samning við orkufyrirtæki um orkukaup og fengið orkuna flutta um orkuflutningskerfi.

Varðandi raforkuvinnslu gerir hugsanleg tilskipun ráð fyrir að ríkið geti valið milli leyfisveitinga og/eða útboða. Einstök ríki eiga að setja og birta skilyrði varðandi leyfisveitingar. Þessi skilyrði geta náð til:

1. Öryggis og áreiðanleika raforkukerfisins, umhverfismála, landnotkunar og staðarvals, afnota af svæði á forræði hins opinbera, orkunýtni, eðlis orkulindanna og orkugjafanna og atriða sem tengjast umsækjendum um virkjanaleyfi, bæði sem snúa að tæknilegri getu fyrirtækjanna og eins fjárhagslegri getu fyrirtækjanna til þess að taka þátt í slíku. Með þessum skilyrðum eiga ríki að geta haft nauðsynlega stjórn á raforkuvinnslunni um leið og opnað er fyrir samkeppni.

Ef ríkin velja útboðsleiðina eiga óháðir framleiðendur jafnframt að geta sótt um leyfi til raforkuvinnslu enda fullnægi þeir skilyrðum sem sett verða. Ef tilskipunin verður samþykkt og hún nái jafnframt fram að ganga og nái til alls EES-svæðisins þarf að breyta ákvæðum orkulaga um samþykki Alþingis, m.a. með tilliti til þess að þá er ekki lengur hægt að takmarka það við vinnslu miðað við 2 megavött. Hins vegar þurfa þá stjórnvöld hafa hafa skýra stefnu varðandi þau skilyrði sem sett verða fyrir leyfisveitingum sem ég hef gert grein fyrir og ef þeim er haldið til haga höfum við fulla stjórn á þessum hlutum.

Varðandi beinar spurningar málshefjanda vil ég segja þetta: Í þeim viðtölum í fjölmiðlum, sem vitnað var til, var ekki verið að spyrja um afstöðu til tillögunnar eða tilskipunarinnar. Spurningin snerist fyrst og fremst um fjárfestingar erlendra aðila í orkuvinnslunni. Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr í því máli og eins og ég hef þegar vikið að hefur Alþingi sett lög sem heimila slíka fjárfestingu.

[10:15]

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur verið bent á að í drögum að tilskipun sé raforkukerfi eins og því íslenska sem er algerlega einangrað með mjög lítinn vöxt í raforkunotkun almenna markaðarins og sem byggir á endurnýtanlegum orkugjöfum ekki gerð skil. Það hefur því verið settur fram af Íslands hálfu fyrirvari um að sum ákvæði tilskipunarinnar kunni ekki að eiga við hér á landi meðan raforkukerfið er ekki tengt við kerfi annarra ríkja.

Eins og málshefjanda er kunnugt um er að störfum nefnd til að undirbúa löggjöf um eignarrétt á auðlindum í jörðu, jarðhita, jarðefni og grunnvatn sem og virkjunarrétt fallvatna. Ég vænti þess að sú nefnd ljúki störfum í sumar og unnt verði að leggja fyrir Alþingi næsta haust frumvarp eða frumvörp þar sem skýrt verði kveðið á um eignarrétt og ráðstöfunarrétt yfir þessum auðlindum. Þetta hef ég áður sagt við hv. þm. í umræðu við lokaafgreiðslu frv. um erlenda fjárfestingu og þá var m.a. boðið upp á að staða nefndarstarfsins yrði kynnt fyrir hv. iðnn. Alþingis. Ég veit að formaður nefndarinnar, hv. þm. Stefán Guðmundsson, hefur boðið upp á að ef hv. alþingismenn óska þess, þá er hægt að kynna stöðu nefndarstarfsins fyrir iðnn.

Einnig til þess að vera sem best í stakk búnir, nái þessi tilskipun fram að ganga, hefur verið skipuð nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka, sveitarstjórna og þeirra aðila sem tengjast orkufyrirtækjunum í landinu til þess að undirbúa skipulagsbreytingar sem tengjast tilskipuninni nái hún fram að ganga. Markmiðið með því nefndarstarfi er í fyrsta lagi það að auka hagkvæmni á orkusviðinu, auka samkeppni en jafnframt að stuðla að jöfnun orkuverðs. Í þriðja lagi að tryggja gæði þjónustunnar og afhendingaröryggið og í fjórða lagi að auka sjálfstæði orkufyrirtækjanna og ábyrgð stjórnenda þess.