Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 11:20:51 (6723)

1996-05-29 11:20:51# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[11:20]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. sá ástæðu til þess að leiðrétta það að ekki hefði verið haft nægilegt samráð við starfsfólk eins og ég vildi halda fram. Ég byggi skoðun mína á viðtölum við starfsfólk og það ættu nefndarmenn í hv. samgn. að geta staðfest að það taldi fjarri því að nægilegt samráð hefði verið haft við starfsmannafélögin og gagnrýndi mjög þann undirbúning sem hefði verið við málið og það að enginn farvegur hefði verið til í ráðuneytinu fyrir undirbúning að þeirri miklu breytingu í samráði við starfsfólkið. Þetta er byggt á yfirlýsingu þeirra og rökstuddu áliti sem fulltrúar allra starfsmannafélaganna lögðu fram í samgn.

Hvað varðar hitt atriðið er það fullyrðing hæstv. samgrh. að öll frestun mundi koma samkeppnisaðilum til góða eins og ég held að hann hafi orðað það. Ég lít svo á að öll efni séu til þess að Póstur og sími eins og hann er nú í stakk búinn gæti mætt þeirri samkeppni af fullum þunga og áræði. Stofnunin hefur sýnt það að hún hefur getað brugðist skjótt og vel við og aldrei staðið á að stofnunin fengi heimildir til þess að vinna að þeim tæknibreytingum sem hún hefur talið sig þurfa á að halda.