Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 15:59:41 (6757)

1996-05-29 15:59:41# 120. lþ. 151.10 fundur 533. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (gjaldflokkar fólksbifreiða) frv. 48/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[15:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hreyfa við þessari hlið málanna, þ.e. umhverfishliðinni, og það gerði ég reyndar lítillega í ræðu minni. Ég nefndi þann þátt. Ég er sammála hv. þm. um að menn mega ekki missa sjónar á orkusparnaðarsjónarmiðum, það er alveg nauðsynlegt. Ég lít svo á að það sé ekki verið að gera í þessu máli. Þetta var að vísu ekki rætt sérstaklega eða mikið í efh.- og viðskn. en ég bendi t.d. á þann anga þessa máls sem felur í sér sérstaka lækkun á dísilbifreiðum og það er eitt atriði sem ég tel að eigi tvímælalaust að skoða í þessu efni, þ.e. að reyna að færa notkunina meira yfir í það form því að því fylgi bæði orkusparnaður og minni mengun.

[16:00]

Ég er enn fremur þeirrar skoðunar að þetta sjónarmið eigi fyrst og fremst að meðhöndla í gegnum skattlagningu á eldsneytisnotkuninni og ég held að það sé löngu tímabært að tekin verði upp umræða um að leggja á koldíoxíðsskatt eða umhverfisskatt fremur en ganga óhóflega langt í því að hafa mismunandi gjaldtöku á innkaup bifreiðanna vegna þess að aðstæður sumra eru slíkar að þeir eiga ekki kost á öðru en að kaupa stærri tegundir. Ég held að það sé þrátt fyrir allt eldsneytisnotkunin sem verði að reyna að stemma stigu við og þar sé réttlætanlegt að hafa verulega íþyngjandi skatttöku.

Auk þess verður auðvitað að taka á umhverfissjónarmiðum með fjölmörgum öðrum þáttum eins og þeim að bæta almenningssamgöngur, rafvæða strætisvagna, koma vetnismótorum í flotann og þar fram eftir götunum. Allt eru þetta hlutir sem því miður er lítið farið að hyggja að á Íslandi.

Varðandi landsbyggðarþáttinn er það út af fyrir sig rétt að við höfum ekki nýjar tölur um hlutföll í þessu sambandi en þó liggur fyrir í innheimtu þungaskatts að dísilbifreiðar eru bæði sem einkabifreiðar og atvinnutæki hlutfallslega mun algengari á landsbyggðinni og þær eru yfirleitt stærri og hafa lent í hærri gjaldflokkum.

Ég vek líka að lokum athygli á því, herra forseti, að lækkunin er hlutfallslega minnst á stærstu bifreiðarnar, úr 75% í 65% vörugjald á stærstu bílana sem eru aðeins um 14% lækkun, en lækkunin á bifreiðar í 1.400--1.600 rúmsentimetra vélarstærð í bensínflokkinum er fjórðungur þannig að að því leyti til er reynt að haga þessu þannig að það komi mest til góða í formi lækkunar á minnstu bílana.