Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:27:10 (6770)

1996-05-29 16:27:10# 120. lþ. 151.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:27]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þessi brtt. fjallar m.a. um embættismenn eða þá sem teljast embættismenn ef þetta frv. verður að lögum og hefur tekið talsverðum breytingum frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir og líka frá því sem gert var ráð fyrir við 2. umr. málsins.

Hins vegar er það svo að einn hópur manna í þjóðfélaginu hefur mótmælt þessari grein alveg sérstaklega, þ.e. Prestafélag Íslands, vegna þeirra ákvæða sem tekin eru inn í 4. tölul. þar sem gert er ráð fyrir því að prófastar og prestar þjóðkirkjunnar teljist til embættismanna samkvæmt öðrum ákvæðum frv. og þeir séu ráðnir til fimm ára í senn. Ég tel satt að segja ákaflega athyglisvert að núverandi stjórnarmeirihluti skuli beita sér fyrir ekki einasta atlögu að verkalýðshreyfingunni, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandinu, heldur líka hinni almennu þjóðkirkju með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um. Á þessu vek ég athygli, hæstv. forseti.