Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 17:32:36 (6798)

1996-05-29 17:32:36# 120. lþ. 152.2 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 152. fundur

[17:32]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum hv. síðasta ræðumanns vil ég láta það koma fram að hinn 3. maí sl. áttum við fund fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, sá sem hér stendur og hæstv. fémrh. Á þeim fundi voru forustumenn Sambands ísl. sveitarfélaga, þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Þórður Skúlason og auk þess starfsmenn beggja ráðuneyta.

Það er rétt sem kemur fram í bréfi Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 25. maí 1996, að niðurstaða fundarins hafi verið á þá leið að ráðherrarnir hafi fallist á þau sjónarmið að sveitarfélögin færu skaðlaus út úr þeim breytingum sem hér er verið að gera. Það var gert í fyrsta lagi með breytingum á frv. um fjármagnstekjuskatt, sem liggja fyrir nefndinni, en í öðru lagi var ætlunin að bæta sveitarfélögunum upp tap vegna skerðingar á skattstofni annars vegar og vaxtagreiðslum hins vegar en það var skýrt tekið fram að af því gæti ekki orðið í beinum tengslum við það frv. sem hér er til umræðu né heldur fjármagnstekjuskattsfrv. en því lofað að að því yrði unnið og við það staðið áður en fjármagnstekjuskatturinn fer að virka og rýra tekjur sveitarfélaganna.

Þetta vil ég að hér komi fram, ekki síst ef það mætti verða til þess að flýta fyrir þingstörfum og ég veit að ég tala fyrir munn okkar beggja, mín og hæstv. félmrh.