Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:01:50 (6816)

1996-05-30 12:01:50# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:01]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sem lauk máli sínu áðan er fyrrv. lögfræðingur Alþýðusambands Íslands. Því kemur mér það á óvart, herra forseti, þegar hún ræðir um misnotkun atvinnurekenda í fiskvinnslu á Atvinnuleysistryggingasjóði. Lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð og þau atriði sem þar er að finna um það að fiskvinnslufyrirtæki fái rétt til þess að fá greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði eru búin til í þrígang af ríkisvaldinu í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur. Það er samsvarandi ákvæði í lögum um það að Atvinnuleysistryggingasjóður getur greitt til iðnfyrirtækja vegna tímabundinnar stöðvunar. Þetta var samið um til þess að tryggja þessu fólki réttindi vegna þess að hráefnisástand margra fiskvinnslufyrirtækja er þannig og hefur verið þannig gegnum tíðina að menn hafa ekki treyst sér til þess að veita verkafólki tilskilið lágmarksatvinnuöryggi. Þannig stóðu allir aðilar að þessu, ríkisvaldið, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin.

En ég get tekið undir það og sagt sem svo: Þetta er kannski ekki rétta leiðin. Það á kannski ekki að nota Atvinnuleysistryggingasjóð til þess að stoppa upp í þetta gat og það er til athugunar og ætti að vera til athugunar á þessu þingi hvort við ættum að finna aðrar og betri leiðir til þess. Sjóðurinn hefur að sjálfsögðu allt annað takmark og tilgang. Umræðan um það að hér séu atvinnurekendur æ ofan í æ að misnota þetta eru því rangar og alveg tilhæfulausar. Það eru lög fyrir því hvernig þetta skuli gert.