Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 16:28:04 (6862)

1996-05-30 16:28:04# 120. lþ. 155.1 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 155. fundur

[16:28]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur alltaf verið afstaða okkar alþýðuflokksmanna, líka í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að það bæri að skattleggja fjármagnstekjur eins og aðrar tekjur. Það var sú tillaga sem við gerðum í þeirri ríkisstjórn. Hins vegar er rétt að við féllumst á þá beiðni Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins að láta kanna 10% nafnvaxtaskatt. Út af fyrir sig vil ég ekkert loka á það að 10% nafnvaxtaskattur sé reyndur sem fyrsta skref í átt til eðlilegrar skattlagningar fjármagnstekna. En þetta frv. snýst ekki um það. Frv. snýst ekki um 10% nafnvaxtaskatt eða 10% skatt á vexti. Frv. snýst um gerbreytingu á skattalegri meðferð arðgreiðslna, útgreiðslu arðs hjá fyrirtækjum, móttöku arðs hjá eigendum þeirra, á söluhagnaði hlutabréfa, á leigutekjum og öðrum slíkum tekjum sem hingað til hafa verið skattlagðar með 42--47% en á nú að færa skatta af niður í 0--10%. Það er meginatriði frv. Það er það atriði sem gerir það að verkum að menn sem hafa verið á móti skattlagningu vaxtatekna eins og margir þingmenn í þessum sal, skiptu um skoðun vegna þess að þeir hagsmunir vógu þyngra í huga þessar manna en nafnskattur á vexti. Það er þetta sem ég er á móti. Það er þetta sem ég vil ekki samþykkja, að það sé undir fölsku flaggi verið að fara fram á Alþingi með frv. sem ekki miðar að eðlilegri skattlagningu fjármagnstekna heldur að mestu eignatilfærslu til stóreignamanna á Íslandi sem íslensk skattalöggjöf kann frá að greina.

[16:30]