Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:31:22 (6966)

1996-05-31 21:31:22# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það eru engin ný sannindi og hv. þm. er ekki sá fyrsti sem uppgötvar það eða rökstyður að þeim mun hærri sem skattaprósentur eru, þeim mun meiri hvatir séu fyrir hendi til að losna við að greiða skattinn. Það er ekki nýtt fyrir hvorki mér né væntanlega öðrum hér. En menn hætta samt ekki að reyna að afla ríkissjóði þeirra tekna sem hann verður að fá. Menn verða að leysa það vandamál þó að mönnum sé þessi staðreynd ljós. Sá einfaldi veruleiki sem mér finnst hv. þm. stundum vera að boða að þá eigi menn bara að lækka alla skatta af því að ef þeir séu háir þá sé meira stolið undan er ekki fær. Það er ekki raunsætt vegna þess að við rekum ríkissjóð á Íslandi með halla og við höfum skrúfað niður í mikilvægri þjónustu, sem er lífsnauðsynleg fyrir þjóðina, og við erum að reyna að ná þarna endum saman og á grundvelli einhverrar hugmyndafræði eða fræðikenningar eða einhverrar kúrfu sem ég man aldrei hvað heitir er ekki hægt að nálgast málið svona. Við þurfum þessar tekjur og málið snýst um það hvernig við dreifum skattbyrðinni réttlátast. Auðvitað er það þannig líka að aðstæður eru mismunandi. Hin einstöku svið eða greinar eru mismunandi, það vitum við. Þó það sé viðkvæmt mál um að fjalla og ég tala nú ekki um úr ræðustól á Alþingi þá liggur það alveg fyrir að ákveðin svið liggja undir grun um að vera útsettari fyrir skattaundanskoti en önnur af því að þá eru viðskiptin þannig í eðli sínu að það er svo auðvelt að koma því við og það er svo auðvelt fyrir þá sem taka þátt í því að skipta því á milli sín. Þetta liggur svona. Ýmis persónuleg viðskipti í þjónustu eru þannig í eðli sínu að meiri hætta er á því að um undanskot geti orðið að ræða einfaldlega vegna þess að það er auðvelt að koma því við. Þeir fáu aðilar sem þeim viðskiptum tengjast eiga auðvelt með að skipta ágóðanum á milli sín sem af því hlýst að skila ekki til skatts. Þetta eru bara staðreyndirnar sem við verðum að horfast í augu við. En við getum ekki leyst málið með þeim einfalda hætti að hætta að leggja á skatta.