Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 11:27:56 (6981)

1996-06-03 11:27:56# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[11:27]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er merkilega hljótt um það mál sem við erum að ræða hér úti í þjóðfélaginu. Það á að fara að selja eða breyta í grundvallaratriðum einu sterkasta fyrirtæki almennings á Íslandi, fyrirtæki sem þjóðin á og hefur átt um áratuga skeið. Hér hefur farið fram þó nokkur umræða í þessari stofnun um málið. En af einhverjum ástæðum er það þannig að það vaknar ekki veruleg hreyfing til eða frá úti í þjóðfélaginu. Ég held að það sé fyrst og fremst vegna þess að áróðursmönnum ríkisstjórnarinnar undir forustu hæstv. samgrh. hefur tekist að setja málið í þann búning að menn telja að í raun og veru breytist ekki neitt og það muni ekkert gerast þó svo að þetta fyrirtæki verði gert að hlutafélagi. Þetta er býsna alvarlegt umhugsunarefni í okkar lýðræðislega kerfi sem hin almenna umræða er í þjóðfélaginu. Hún er auðvitað undirstaðan undir lýðræðinu að því leytinu til að þar verður til afstaða fólks. Og hæstv. samgrh. segir líka alltaf þegar verið er að taka þetta mál upp til umræðu og sagt: ,,Verður fyrirtækið ekki bara selt?`` Þá segir hann: ,,Nei, nei. Það er Alþingi sem ákveður það.`` Og hæstv. félmrh. lagði lykkju á leið sína í útvarpsumræðum um daginn og sagði: ,,Póstur og sími, það fyrirtæki verður ekki selt þó það verði gert að hlutafélagi með einu hlutabréfi. Það verður ekki selt.``

[11:30]

Ég vil af þessu tilefni fara nokkrum orðum um það mál og segi eins og er: Sporin hræða. Þegar við lítum til þeirrar reynslu sem menn hafa frá Danmörku og Noregi er augljóst mál að sporin hræða. Þar eru menn að selja þessi hlutafélög. Í Danmörku hafa þessi hlutabréf verið á markaði og í staðinn fyrir að Póstur og sími og þessi starfsemi skili verulegum tekjum í ríkissjóð Dana er það orðið þannig að um 3--4 milljarðar danskra kr. hafa runnið í tekjur af þessari starfsemi til Bandaríkjanna af því að um 30% hlutabréfa í þessu fyrirtæki eftir að það varð hlutafélagavætt urðu bandarísk. Ég hitti hóp íslenskra þingmanna sem voru að ræða við fulltrúa símans í Noregi í fyrrahaust og þá var sagt: Nei, ríkið á þetta áfram. Núna virðast menn hins vegar hafa skipt um skoðun þar sem verið er að undirbúa sölu á hlutabréfum í Noregi í þessu fyrirtæki. Ég segi alveg eins og er, ég trúi því ekki þegar hæstv. samgrh. fullyrðir að það standi ekki til að selja þetta bréf eða breyta því í mörg bréf þannig að fleiri geti keypt. Ég er handviss um að það er undir niðri fullur áhugi á því í þingliði Sjálfstfl. hjá einum og einum þingmanni að selja fyrirtækið og það eitt væri reyndar í samræmi við einkavæðingarstefnu Sjálfstfl. sem hefur verið rekin undir forustu Hreins Loftssonar. Þetta er haft eftir honum á einum stað, með leyfi forseta: ,,Það er eignarhaldið sem skiptir öllu. Sumir segja að rekstrarformið skipti öllu en ekki eignarhaldið. Ég er annarrar skoðunar, það er er eignarhaldið sem skiptir öllu.`` Ég held að það sé með öðrum orðum alveg augljóst mál að Sjálfstfl. er bara að pína þingið til þess að undirbúa þetta ferli. Hann ætlar að halda áfram á þessari braut. Hann segir ekki frá því eða hefur sem fæst orð um það alla vega á þessu stigi málsins en hann ætlar að halda áfram á þessari braut. Hann er að blekkja þingið, hann er að blekkja þjóðina, hann er að blekkja starfsmenn Pósts og síma og hann er að blekkja Framsfl. eins og venjulega. Ég er sannfærður um að ýmsir þingmenn Framsfl. halda að það gerist ekki og að þeir hafi málið í sínum höndum þótt þetta frv. verði samþykkt og gert að lögum. En ég er sannfærður um að undir niðri er það þetta sem forustumenn Sjálfstfl. gera ráð fyrir, þ.e. að þessu fyrirtæki verði breytt í venjulegt hlutafélag og það verði selt.

Þá ætla ég að leggja fyrir hæstv. samgrh. spurningu við tækifæri þegar hann hefur lagt frá sér þessi ríkisvæddu fjarskipti sem heita síminn og hann er alltaf í, þótt ríkið reki hann. Það er alveg ótrúlegt hvað hann nennir að skipta við svo ófrjálst fyrirtæki, hæstv. samgrh. Það er alveg merkilegt hvað hann er hrifinn af einokuninni í verki því hann hangir alltaf í símanum, hæstv. ráðherra. Ég mundi vilja leggja fyrir hann spurningu um þetta mál, þ.e. varðandi það hvað hann hyggst gera í málinu í sumar. Er einhver hætta á því að hann muni setja í gang undirbúning á breytingu á fyrirtækinu? Og að hann muni stilla Alþingi upp við vegg? Það hefur einmitt verið aðferðin sem ríkisstjórnin hefur notað, bæði þessi og reyndar sú síðasta líka að Alþingi hefur verið stillt upp við vegg í sambandi við sölu á einstökum ríkisfyrirtækjum. SR-mjöl er náttúrlega frægasta og ljótasta dæmið. Ég ætlaði að spyrja hæstv. samgrh. þeirrar spurningar hvort það sé hugsanlegt að það verði settur í gang undirbúningur að einkavæðingu, markaðsvæðingu, sölu á einstökum bréfum í þessu fyrirtæki og Alþingi verði stillt upp við vegg. Eða þorir hæstv. ráðherrann að slá því föstu að það verði ekki farið af stað með sölu á þessu fyrirtæki nema Alþingi hafi áður samþykkt það fyrir sitt leyti? Þetta er spurning sem ég tel mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra svari og það er grunsamlegt ef hann gerir það ekki vegna þess að það er úrslitaatriðið í málinu hvort að hann hefur þetta í huga. Það kemur auðvitað í ljós að þetta ævintýrakapítal hér í landinu er að undirbúa það. Það er að undirbúa að koma sér inn í þessa starfsemi. Það birtust fréttir um það í síðustu eða næstsíðustu viku ef ég tók rétt eftir að einhverjir aðilar væru að velta því fyrir sér. Og ég er alveg sannfærður um að þeir aðilar sem eiga fjármuni geta alveg eins hugsað sér að ávaxta þá í þessari starfsemi. Staðreyndin er sú að þarna er framtíðin. Þarna er auðlind framtíðarinnar. Það er búið að halda hér miklar ræður um það í þessari stofnun hvernig á að koma fyrir eignarhaldi útlendinga í sjávarútveginum. Það er mjög mikilvægt mál. Um það hafa verið mjög miklar deilur í þessari stofnun, mjög langar ræður og mjög ítarleg nál. um það mál einmitt núna í vetur. En veruleikinn er sá að undirstaðan undir auðlegð framtíðarinnar og lífskjörum framtíðarinnar á Íslandi, ef þau eiga að vera samkeppnisfær við það sem gerist í grannlöndum okkar eins og við viljum, bæði ég, hæstv. ráðherra og aðrir þingmenn hér, er sú að við séum virkur hluti af hinni tæknilegu umsköpun sem m.a. fjarskiptin eru hluti af og í öðru lagi að við höfum yfir að ráða okkar orkulindum. Það má segja að orkan og upplýsingaveiturnar séu kannski frekar en allt annað undirstaðan undir því að við getum haft sæmileg lífskjör hér í þessu landi við ysta haf á næstu árum og áratugum.

Þess vegna er alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari þessari spurningu og ég er sannfærður um að það eru allmargir aðilar sem munu hugsa sér til hreyfings varðandi möguleikana á því að kaupa hlut í þessari stofnun því hún skilar arði. Þetta er einhver gróðavænlegasta og arðvænlegasta stofnun á Íslandi, Póstur og sími. Þeim mun undarlegra er einmitt þegar menn eru að tala um að selja hana vegna þess að fá ef nokkurt fyrirtæki skilar öðrum eins gróða og Póstur og sími þegar upp er staðið. Því hefur í engu verið svarað hvorki af formanni samgn. eða hæstv. ráðherra af hverju verið er að selja þetta góða ríkisfyrirtæki, breyta því í hlutafélag þegar allt er í lagi í fyrirtækinu. Það skilar stórkostlegum hagnaði og auk þess hefur það fylgst með tækninýjungum með myndarlegum hætti að mér skilst sem ótæknifróðum manni og allir taka undir það. En samt á að einkavæða það. Hvað á þetta að þýða? Rökin eru þau að fyrirtækið geti ekki tekið þátt í þeim breytingum sem verða í framtíðinni, tæknibreytingum, ef fyrirtækið er ríkisfyrirtæki.

Ég hef velt þessu talsvert mikið fyrir mér og mér finnst þetta kannski vera sú röksemd sem er umræðuverð í þessu samhengi. Ég hef reynt að fara yfir það í mínum huga hvort það er virkilega þannig að það sé útilokað að svona fyrirtæki geti starfað sem ríkisfyrirtæki með virkum hætti. Það eru auðvitað vissar hömlur settar við því að menn geti farið með ríkishluta eins og þeim sýnist, sem betur fer. Við samþykktum hér um daginn ný lög um fjárreiður ríkisins, mjög góð lög að mínu mati. Og í stjórnarskránni segir hvorki meira né minna en svo: Ekkert gjald má inna af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta er yfirleitt túlkað þannig að ríkissjóði og ríkisstofnunum sé óheimilt að kaupa bréf, hlutabréf, í öðrum fyrirtækjum nema áður hafi verið gerðar um það samþykktir í sérlögum, sérstökum lögum.

Nú verður auðvitað að viðurkenna það að framkvæmd þessa hefur verið losaraleg hjá ríkinu. Hún hefur verið mjög losaraleg. Fjöldinn allur af ríkisstofnunum hefur í raun og veru keypt hlutabréfin, eignast hlutabréf án þess að það hafi áður verið samþykkt í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þess eru dæmi t.d. að fyrirtæki eins og Ríkisspítalarnir tók um það ákvörðun að eignast hlut í hugbúnaðarfyrirtæki en var svo bannað það vegna þess að það studdist ekki við lög og reglur. Það höfðu engar heimildir verið samþykktar hér í þessari stofnun um að Ríkisspítalarnir mættu eiga hlut í fyrirtækinu.

Í lögum um Háskóla Íslands er hins vegar ákvæði sem heimilar honum með samþykki háskólaráðs að eiga, eins og stendur í lögunum, aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum er séu hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stundi framleiðslu og sölu sem lýtur að slíkri starfsemi í því skyni að þróa hugmyndir og hagnýta niðurstöður rannsókna og þróunarverkefna sem háskólinn vinnur að. Hér er um að ræða alveg skýra heimild sem Háskóli Íslands hefur. Og það vill reyndar svo til að í lögum um nokkrar rannsóknarstofnanir eins og Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Iðntæknistofnun eru svipuð ákvæði. Þess eru því dæmi að það hafi verið sett í lög um viðkomandi stofnun ákvæði um að hún megi kaupa hlut í öðru fyrirtæki enda þjóni það tilteknum og afmörkuðum markmiðum.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að það ber að mínu mati að fara varlega í þessu efni vegna þess að ég tel ekki að ríkisstofnanir eigi að vera að kaupa hlut í fyrirtækjum hömlulaust og opið og það geti ýtt jafnvel undir misnotkun, m.a. vegna þess að það er tilhneiging til þess í landi þar sem lítið er um fjármagn að ýta undir það að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki komi inn mjög víða. Ef það væri opnuð almenn heimild fyrir ríkisstofnanir til að kaupa hlutafé óttast ég að menn, m.a. hér í þessari virðulegu stofnun, mundu nota aðstöðu sína til þess að knýja þau fyrirtæki til þess að kaupa hlut í einstökum fyrirtækjum. Það er hlutur sem ég vil ekki. Þess vegna tel ég að ef setja ætti inn í lög ákvæði um að heimila t.d. Pósti og síma að kaupa hlut í fyrirtækjum þá yrði það að vera með skýrum, afmörkuðum og tilteknum hætti eins og er í lögunum um Háskóla Íslands.

Eins og ég sagði, hæstv. forseti, hafa ótrúlega margar ríkisstofnanir verið að kaupa hlut í fyrirtækjum á undanförnum árum og um er að ræða mjög verulega hlutabréfaeign all margra ríkisstofnana. Það er mjög merkilegt að horfa á það hvernig að þessum málum er staðið og hygg ég að hæstv. samgrh. þekki það úr fyrra lífi sínu í landbrn. að það hefur veitt skjól til þess að það hafa verið seld hlutabréf ríkissjóðs og notuð með tilteknum hætti í þágu t.d. Skógræktar ríkisins og Héraðsskóga án þess að það hafi verið mjög rækilega gengið frá því máli fyrr en eftir á með fjárlögum ársins 1994, löngu eftir að þessi gjörningur hafði átt sér stað. Þannig að ég hvet ekki til þess, hæstv. forseti, að þetta sé galopið og ég hvet heldur ekki til þess að menn gangi frá þessum hlutum öðruvísi en með mjög skýrum og ótvíræðum lagaákvæðum. Mín niðurstaða er sú eftir að hafa sýslað með þessi mál í mörg, mörg ár, m.a. sem yfirskoðunarmaður ríkisreikninga, að það væri langeðlilegast og í raun og veru auðvelt að setja inn í lög um Póst og síma ákvæði um að fyrirtæki geti við tilteknar aðstæður hætt afmörkuðum hluta af sínum tekjum, af sínu fjármagni í kaup á hlutabréfum enda sé það gert í tilteknum tilgangi.

Ég held, hæstv. forseti, að einu rökin sem ég hef heyrt í þessu máli sem skipta einhverju máli, þ.e. að fyrirtæki þurfi að geta farið inn í slík fyrirtæki, rannsóknar- og þróunarverkefni og nýfjárfestingu af ýmsu tagi, séu líka fallin og það standi þar af leiðandi ekkert eftir af raunverulegum rökum í þessu máli. Ég tel að hægt sé að tryggja sveigjanleikann sem alltaf er verið að tala um með lögum án þess að um hlutafélag sé að ræða og óþarfi sé að selja fyrirtækið af því að það hefur verið vel rekið og skilað miklum hagnaði. Það er líka óþarfi að selja fyrirtækið vegna þess að því hafi tekist að tryggja að Ísland fylgist eðlilega með tækninýjunum og þeirri byltingarkenndu þróun sem á sér stað í þjóðfélaginu. Og það á góðu verði. Ég hef hér fyrir framan mig upplýsingar um verðlag á þessari þjónustu á Íslandi og annars staðar. Hún er lægri hér en nokkurs staðar annars staðar. Þegar allt þetta er rakið saman, verð á þjónustunni, tæknilegar framfarir, tekjur í ríkissjóð og hugsanleg trygging þess að stofnunin byggi við nægilegan sveigjanleika með sérstökum lögum er niðurstaða mín sú að hér sé verið að framkvæma frjálshyggjukenningu. Hæstv. ráðherra sé að framkvæma frjálshyggjukenningu án þess að hann viti mikið um það sjálfur því ég tel að hann sé heldur í slakari kantinum sem betur fer af frjálshyggjumönnum, hæstv. ráðherra. En ég tel að hér sé um að ræða hugmyndafræðilegan undirstraum, tiltölulega kalda frjálshyggju, sem á ekkert skylt við nauðsynina í íslensku þjóðfélagi í dag. Það er ekkert sem rekur menn til að gera þetta af einhverri brýnni nauðsyn af einu eða neinu tagi.

[11:45]

Þess vegna vil ég segja það, hæstv. forseti, að ég vísa algjörlega á bug þeim sjónarmiðum sem hér eru uppi þó ég geti út af fyrir sig vel rætt þessi mál og útiloki engan veginn að á þeim sé tekið. En nú er það niðurstaða ríkisstjórnarinnar að þannig eigi að ganga frá þessu máli að það eigi að breyta fyrirtækinu í hlutafélag og það hefur verið rakið hér nokkuð rækilega að málið sé ekki mjög vel unnið. Ég vil spyrja: Af hverju þarf endilega að klára þetta í vor? Hvað er það sem rekur á eftir því? Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra eða hv. formaður samgn. gætu útskýrt það fyrir mér. Ég næ því ekki hvað það er sem rekur á eftir því að þetta verði endilega gert núna í vor. Það er greinilegt að það er verið að lengja þingið sérstaklega til að ljúka þessu máli. Þinginu átti að vera lokið 15. maí. Það er búið að teygja það í þrjár til fjórar vikur því menn eru svo uppteknir af því að ljúka málum eins og þessu, eins og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og eins og stéttarfélög og vinnudeilur. Það er einhver ofuráhersla lögð á þetta mál. Er þetta sigurflagg Sjálfstfl.? Hvað er eiginlega um að vera? Hvað liggur á? Hvaða læti eru þetta? Hvað er það sem hæstv. samgrh. hefur til saka unnið til að hann telji sig nauðbeygðan til að þræla þessu hér í gegn? Ég skil það ekki. Ég skora á hann að segja okkur frá því. Þeir virðast ætla að gera þetta.

Þá kem ég að starfsfólkinu. Þarna vinnur fólk alveg sprelllifandi fólk. Jónar og Gunnur og alls konar fólk með kennitölur sínar og fjölskyldur og skuldbindingar og kaup sitt og kauptaxta og orlof og fæðingarorlof og allt þetta. Það er að leggja inn í sumarið eins og aðrir. Menn hafa nú verið í því að reyta fjaðrirnar af þessu fólki eins og mögulegt hefur verið núna í öðrum lögum sem hér hafa verið tekin í gegn, en hvernig stendur það mál? Hvernig stendur það gagnvart starfsfólkinu? Hvernig stendur það? Það birtist grein í Morgunblaðinu fyrir helgina þar sem segir: ,,Réttindi starfsfólks Pósts og síma enn í lausu lofti.`` Í greininni segir, með leyfi forseta:

,,Halldór Blöndal lýsti því yfir í umræðum á Alþingi, miðvikudaginn 29. maí að ekki væru mörg dæmi um að jafnmikil áhersla hafi verið lögð á góða samvinnu við starfsfólk og við undirbúning á því að breyta rekstrarformi Pósts og síma. Sú samvinna hefur farið fram hjá okkur,`` segja Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Félags íslenskra símamanna og Þuríður Einarsdóttir, formaður Póstmannafélags Íslands.

,,Sú samvinna hefur alveg farið fram hjá okkur þrátt fyrir það að við séum í forsvari fyrir um 2.000 starfsmenn eða um 2.500 starfsmenn stofnunarinnar.`` --- Hvernig stendur á þessu, hæstv. ráðherra? Er þetta fólk að plata? Er það að segja ósatt? Síðan segja þær áfram:

,,Það hefur vissulega verið rætt við okkur og við höfum tekið þátt í að afla upplýsinga í samvinnu við Póst og síma en það er rangt að samvinna hafi verið höfð við okkur um samningu þess frumvarps sem nú liggur fyrir á Alþingi. Það sést best á því að enn er algjörlega eftir að ganga frá réttinda- og kjaramálum starfsmanna stofnunarinnar.``

Hér stendur að enn sé algjörlega eftir að ganga frá réttinda- og kjaramálum starfsmanna stofnunarinnar. Af hverju er það ekki gert? Af hverju er núv. ríkisstjórn alltaf svona uppsigað við starfslið? Af hverju er hún alltaf á móti starfsliðinu í þessum stofnunum hvort sem það eru kennarar eða hverjir það nú eru? Af hverju er ekki farið í málið? Af hverju er ekki sest niður og samið við þetta fólk ef það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að ljúka þessu verki sem mér skilst að sé þó ég botni ekkert í því af hverju það er? En af hverju er þá ekki farið í að semja við þetta fólk? Á það ekki rétt á því áður en sumarið gengur í garð ef allt er tilbúið eins og talsmenn meiri hluta vilja vera láta? Af hverju er þá ekki farið í að reyna að semja um þessa hluti? Ljúka þessu.

Ég er alveg viss um, hæstv. forseti, að ef það kemur fram að það væri ásetningur ráðherrans að ljúka samningum um málið og hann vildi gjarnan gera það áður en málið yrði að lögum þá værum við tilbúin til að koma hér aftur eftir 10--14 daga til að ljúka málinu ef hann væri þá áður búinn að semja við fólkið. Nú veit ég auðvitað að hann fer ekki með kjarasamninga í einstökum atriðum en hann fer með þetta mál og framkvæmd þess. Það er væntanlega ekki lengra milli hans og hæstv. fjmrh. en svo að hann geti tekið á þessu máli. Mér sýnist reyndar að þessi undirbúningsnefnd eigi að vera eitthvað í þessum málum. Er það tilfellið? Ég spyr að því. Á hún að annast kjarasamninga? Er það í samræmi við önnur lög? Ég botna ekkert í því en mér sýnist þessi undirbúningsnefnd hafa allvíðtækt svið og sé að nokkru leyti verið að stofna hana vegna þess að stjórnarmeirihlutinn viðurkenni að lögin eru ófullkomin og það eigi að láta hana bjarga því sem eftir er af málinu í land. Síðan segir hér í grein formanns Félags íslenskra símamanna og formanns Póstmannafélags Íslands, með leyfi forseta:

,,Komum við þá að yfirlýsingu Einars K. Guðfinnssonar, formanns samgn. í sömu umræðu. Einar sagði þar og er það haft eftir honum í DV 30. maí að það hafi verið vel og tryggilega gengið frá réttindamálum starfsfólks.``

Vel og tryggilega gengið frá þeim en fólkið hefur ekki frétt af því. Væri ekki sniðugt að láta fólkið vita það ef menn eru búnir að þessu? (Gripið fram í: Það er í lögunum.) Það er rangt að þetta sé í lögunum, það er aðeins brot af því í frv. eins og það lítur út núna. Það er náttúrlega alveg eftir öðru að fara að troða því inn í lögin sem menn hefðu átt að vera búnir að gera samninga um. Menn hafa greinilega ekki unnið heimavinnuna sína. (Gripið fram í: Lestu nál.) Ég var að lesa nál. og það er örugglega styttra síðan ég las það en hv. þm. Þar eru örfá atriði tínd upp. En af hverju í ósköpunum eru menn að ganga frá því í lögum hvernig kjörin eiga að vera þegar þetta er fólk sem á að hafa frelsi til að semja um mál sín en hefur ekki hjá þessari stjórn. Það er sem sagt haft eftir hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það hafi verið vel og tryggilega gengið frá réttindamálum starfsfólks. Síðan segir í grein formannanna það sem haft er eftir hv. þm.:

,,Þetta eru ósannindi sem eru ekki samboðin þingmanninum.``

Ósannindi eru ekki samboðin þingmanninum. Þau eru það almennt ekki. Ég tek undir það með þessum konum. En ég trúi ekki að hann sé vísvitandi að bera fram ósannindi. Ég trúi því ekki. Ég spyr: Hvað er hæft í þessu? Hvernig er þessi staða? Af hverju er ekki farið í að ganga frá samningum við þetta fólk?

Síðan segir hér í greininni: ,,Réttindamál starfsmanna Pósts og síma eru algjörlega í lausu lofti,`` segja þær --- ,,og starfsfólk því eðlilega mjög uggandi verði frumvarpið um hlutafélagsvæðingu Pósts og síma afgreitt fyrir þinglok sem því miður allt virðist benda til.``

Síðan segja þær áfram: ,,Við fögnum hins vegar þeirri yfirlýsingu Einars K. Guðfinnssonar seinna í umræðunni að starfsfólkið muni í engu missa áunnin réttindi og samningsbundin réttindi. Við treystum þeirri yfirlýsingu aftur á móti ekki enda hefur ríkisstjórnin sýnt að hún vílar ekki fyrir sér að skerða áunnin og samningsbundin réttindi með því að keyra í gegnum þingið frumvarp um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þrátt fyrir andstöðu allra stéttarfélaga opinberra starfsmanna.

Eðlilegasti framgangsmáti þessa máls alls hefði verið sá að ganga fyrst frá samningum við starfsmenn stofnunarinnar áður en hlaupið var til með frumvarpsómynd þá sem nú er til afgreiðslu í þinginu.``

Ég skora á þá aðaltalsmenn málsins að gera grein fyrir þessu. Af hverju er ekki gengið fyrst frá samningum við starfsmenn stofnunarinnar? Af hverju er ekki gengið þannig frá málum að þeir treysti þessu sem á að fara að gera? Af hverju er þetta alltaf afgreitt eins og eitthvert aukaverk að tala við starfsfólkið, óþarfaverk? Tekur Framsfl. þátt í því að henda út hagsmunum starfsfólksins? Af hverju er ekki farið í að semja um þá hluti? Á síðasta kjörtímabili var það þannig að framsóknarmenn stóðu hér með öndina í hálsinum í þessum ræðustól, hver um annan þveran, hæstv. félmrh. og hæstv. iðnrh., og sögðu: Semja, semja, semja um ríkisfyrirtæki áður en þau verða gerð að einkafyrirtækjum. En nú heyrist ekkert í þessu fólki. (EgJ: Þeir hafa lært ýmislegt síðan.) Það er nákvæmlega það sem hv. þm. Egill Jónsson, varaformaður landbn., bendir hér á. Þeir hafa lært ýmislegt síðan. Framsóknarmenn eru nefnilega að læra tiltekna lexíu sem Sjálfstfl. hefur kennt þeim. Þeir bera enga virðingu fyrir því fólki sem vinnur í þessum stofnunum, ekki nokkra. Það virðist ekki vera þannig. Sjálfstfl. lætur þetta algjörlega lönd og leið. Fulltrúar Sjálfstfl. í hinum ýmsu nefndum spyrja fyrst og fremst að því hvernig kemur þetta nú út gagnvart mér og umhverfi mínu og kjördæmi. En þegar kemur að hinum stóra fjölda, hinum stóra fjölda sem vinnur hjá Pósti og síma er eins og fólk skipti engu máli, skipti ekki nokkru einasta máli. Hvað á þetta að þýða? Af hverju þessi botnlausa lítilsvirðing við frjálsa íslenska einstaklinga sem eiga rétt á því að fá að standa uppréttir og vilja gera það? Af hverju er ekki gengið eðlilega frá þessum málum? Hvað á þetta að þýða? Í þágu hvers eru þeir að vinna sem vinna svona? Hver rekur á eftir þingmönnunum og hæstv. ráðherranum í svona máli? Hver er það? Í þágu hvers eru þeir að vinna sem vinna svona? Hver hefur hagsmuni af því að gera þetta svona? Hvað liggur á?

Ég tók eftir því þegar hv. þm. í landbn., af því að ég sé einn þeirra út undan mér, voru að vinna með frv. um sameiningu Búnaðarfélagsins og Stéttarsambands bænda. Þar vönduðu menn sig. Þar voru fluttar einar 20--30 breytingartillögur lið fyrir lið áður en málið varð að lögum. Menn lágu yfir þessu langtímum saman á fjölmörgum fundum og hv. varaformaður landbn. hrósaði sér af því að hann hefði gert það sem hægt var til að leiða menn saman, til að sætta menn við niðurstöðuna. En hvað er gert í þessari stofnun? Hér er öllu snúið við. Hér er efnt til ófriðar við starfsfólkið algjörlega að óþörfu af því að starfsfólkið er auðvitað sem stétt og sem fagmenn og vill halda þannig á málum að þeirra hagsmunir séu tryggðir enda er þeim skylt að gera það sem forustumönnum í þessari stofnun. Þeim er skylt að gera það. En þá er vaðið fram undir þessum einkavæðingarfánum Hreins Loftssonar og engin rök af neinu tagi eru komin fram. Kannski koma þau í umræðunni. Ég er spenntur að hlýða á svör hæstv. ráðherra og hv. þingmanns Einars K. Guðfinnssonar.