Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 21:29:36 (7084)

1996-06-03 21:29:36# 120. lþ. 158.26 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál. 16/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[21:29]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óska þingsystur minni og flokkssystur til hamingju með afgreiðslu málsins úr nefnd. Ég tel að hér sé hið ágætasta mál á ferðinni. Ég bið velvirðingar á því að ég er með meinbægni út í heiti tillögunnar og mér finnst að málið sé að þessu leyti ekki alveg í réttum farvegi. Ég er ekki að kenna flm. um það efni. Þetta á sjálfsagt rætur í einhverri orðnotkun í íþróttahreyfingunni eða ég skil það svo. En sé svo þá er nú ástæða til þess fyrir íþróttahreyfinguna í landinu að endurskoða málið því það er náttúrlega alveg fáránlegt að vera að gera konur að einhverju sérmengi og stúlkur að einhverju sérmengi í sambandi við þetta efni. Hv. 12. þm. Reykv. tók svo til orða að ,,þar sem konur eru hættar að vera stúlkur``. Og svo er greiningin í stúlknaíþróttir og kvennaíþróttir, brottfall stúlkna og kvenna úr íþróttum, íþróttaiðkun stúlkna og kvenna. Þetta eru orð sem ég tek eftir að eru notuð hér. Er það ekki svo að kona og karl eru almenn heiti yfir kynin? Karl og kona sem aðgreining á tveimur ólíkum kynjum vil ég miklu heldur heyra notað heldur en maður og kona því ég tel konur einnig til manna. Karl og kona. Allar stúlkur eru samkvæmt skilgreiningu konur, allar stúlkur eru konur og barnung stúlka er kona þannig að þessi aðgreining hér sem íþróttahreyfingin virðist hafa tekið upp ber vott um bæði lélegt málskyn og lélegan málsmekk. Ég tel fulla ástæðu til fyrir þingmenn sem hafa staðið að þessu ágæta máli að vinna að því að þetta verði fært til betra horfs málfarslega.