Fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 13:26:14 (7180)

1996-06-04 13:26:14# 120. lþ. 160.92 fundur 342#B fjárhagsstaða sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[13:26]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við þekkjum vel hversu erfitt er að vera með aðhald í rekstri og á samdráttartímum hefur oft verið erfitt að fjármagna framkvæmdir og þjónustu og að takast á við breyttar aðstæður. Þá var ekki búið við skilning Framsfl. á því að þetta væri erfitt. Það var samt reynt að hafa framtíðarsýn í málefnum fatlaðra og í málefnum sjúkrahúsa, bæði hvað varðaði uppbyggingu og rekstur. Ég get ekki stillt mig um það, virðulegi forseti, við þessar aðstæður, að minna á mikilvæga stefnumörkun sem var gerð á síðasta kjörtímabili um uppbyggingu á Ríkisspítölum, um að byggja barnaspítala sem hefði skapað nýjar aðstæður á ýmsum öðrum deildum og aukið möguleika á breyttri og bættri þjónustu sem er lykilatriði í dag þegar nútímalegar læknisaðgerðir gera það að verkum að lega á sjúkradeildum er styttri. En það þarf að veita góða þjónustu.

Nú eru breyttir tímar. Nú er uppsveifla, nú er hagvöxtur og nú er vor í lofti og allt þetta fallega sem við heyrum frá ríkisstjórnarflokkunum. En það er engin framtíðarsýn. Í öllum málaflokkum er bara bent á hallann, hallann og aftur hallann sem eigi að lagfæra. Það er ástæða til að benda á það að á meðan þingmenn staldra við það í skýrslu Ríkisendurskoðunar að athygli er vakin á að sumarlokanir spari ekki í rekstri þá leggur ráðherrann áherslu á að Ríkisendurskoðun telur að lokanir komi ekki að sök gagnvart sjúklingum. Þetta er aldeilis ótrúlegt.

Ég eins og aðrir undrast orð ráðherrans um að pólitík skuli blandað í umræðu um að frv. hennar um heilbrigðismál komi ekki hér á dagskrá. Ég mótmæli því. Við erum að stefna hér að og reyna að gera mögulega þingfrestun hugsanlega á morgun. Ráðherrann hefur fulla möguleika á að setja á öll sín svæðisráð að vild og að ná samkomulagi og samvinnu þannig. En hún vill hafa það lögfest. Spyrja má: Hvers vegna?

Við eigum eftir að ljúka stórum málum, virðulegi forseti. Við höfum tekist á um stórmál í þessum þingsölum, stærri en oft áður: Póst og síma, stéttarfélög og vinnudeilur, lög um opinbera starfsmenn og fjármagnstekjuskatt sem hefur snúist upp í að verða launaskattstekjuauki fyrir stóreignamenn. Og á þessum eftirmiðdegi eigum við eftir úthafsveiðarnar sem eru stórmál. Ráðherrann hefur sótt um það hálfum mánuði fyrir þinglok að fá að mæla fyrir máli sem mun vekja upp eldhúsdag um heilbrigðismál í þessum sölum. Það er staðreyndin. Og leyfi hún sér að kalla það að pólitík sé blandað í, að koma máli á dagskrá, þá finnst mér að hér sé verið að kasta inn eldsprengju sem ekki verði slökkt svo skjótt.