Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 17:00:32 (7227)

1996-06-04 17:00:32# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[17:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að frv. er afrakstur vinnu 100 fagaðila sem komu að þessu máli. Ég vona að hv. þm. hafi lesið nefndarálit frá þeim hópi og það er hópur sem kom frá öllum þessum sjúkrahúsum sem komu að. (GÁS: Ertu að tala um skýrsluna?) Ég er að tala um skýrslu sem ég vona að hv. þm. hafi lesið því að þar er nákvæmlega farið í gegnum það hvernig á að skipuleggja hvaðeina. Ég tek öldrunarmál sem dæmi því að í frv. kemur fram að annað sjúkrahúsið sér um öldrunarmál á Reykjavíkursvæðinu og hitt um endurhæfingu. Það er verið að sérhæfa sjúkrahúsin. Ég sé að þingmaðurinn hefur ekki lesið þessa skýrslu. (GÁS: Hvaða skýrslu ertu að tala um, hæstv. ráðherra? Þær eru margar skýrslurnar.) Já, hv. þm. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Ég vona að það sé hægt að halda svona sæmilegri ró í salnum.

(Forseti (RA): Hæstv. ráðherra hefur orðið.)

Ég er að vitna í skýrslu frá mars 1996 og var kynnt fyrir alþjóð en hún var unnin af nefnd um aukna samvinnu og verkaskiptingu sjúkrahúsanna í Reykjavík og Reykjanesi. Ég sakna þess virkilega að menn hafi ekki fylgst betur með en svo að þeir hafa ekki kynnt sér skýrsluna. Þar kemur þetta allt fram og ég fæ orðið á eftir aftur þannig að ég get enn þá komið inn í þetta, en ég ætla samt að svara nokkrum spurningum sem hv. þm. kom með áðan.

Hann spurði: Hvernig stendur á því að Sjúkrahús Selfoss er ekki inni í þessu og af hverju er ekki Sjúkrahús Akraness í þessu? Þá hélt ég líka að hv. þm. vissi að verið er að vinna að héraðsstjórnun í Vesturlandskjördæmi og í Suðurlandskjördæmi og þar koma þessi sjúkrahús inn í stjórnina. Það er því mjög eðlilegt að við tökum fyrir Reykjanes og Vesturland sérstaklega, Suðurland sérstaklega, Norðurl. v. og Norðurl. e. sérstaklega og Austurland. Ef menn sjá hagkvæmni í því að færa sjúkrahúsin á Selfossi eða Akranesi inn í þetta getur það komið að síðari stigum málsins. En hv. þm. gerði líka athugasemd við það sérstaklega að honum þótti undarlegt að boðaðar væru breytingartillögur í upphafi máls míns. Það er fyrst og fremst vegna þess að ég vil auðvitað auka samvinnuna milli borgarinnar og ríkisins í þessu máli og ég vil að við náum samkomulagi um svo mikilsvert mál sem við erum að ræða um.

Við höfum rætt fram og til baka um það að flatur niðurskurður gengur ekki lengur en til þess að ná utan um þessi mál verðum við að samhæfa betur störf sjúkrahúsanna og það er gert með þessu frv. og ég trúi ekki öðru en við náum samkomulagi um þetta.