Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:19:14 (7276)

1996-06-05 10:19:14# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:19]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð þingflokksformanns Alþfl., hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um hvað óviðunandi er hvernig málsmeðferð þingmannamála er í þinginu. Það eru ekki bara eitt eða tvö mál sem við kvennalistakonur lögðum fram á réttum tíma og hafa ekki fengist rædd. Vil ég þar sérstaklega nefna tillögu til þingsályktunar um kynferðislega áreitni sem með mjög miklum erfiðismunum tókst að fá rædda utan dagskrár í vetur. Síðan var lögð fram formleg tillaga og hún hefur beðið afgreiðslu. Við höfum sett hana á oddinn og hún hefur ekki fengist rædd.

Ég hef haldið að það væri nokkuð skýr ávísun á að mál væru rædd ef þau eru tekin út úr nefnd bæði með meiri- og minnihlutaáliti. Síðast í gær gerðist það að frv. um breytingu á lögum um laun forseta Íslands var tekið út úr allshn. bæði með meirihluta- og minnihlutaáliti en það var ekki ljóst í gærkvöldi hvort það mál fengist rætt í dag þrátt fyrir ítrekaða ósk mína. Mér finnst þetta algerlega óviðunandi og vona að það verði breyting til batnaðar á næsta Alþingi.