Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 19:42:34 (7329)

1996-06-05 19:42:34# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[19:42]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá atriði. Það er enn út af því sem fram kom um uppsetningu frv. hjá hv. þm. eins og hjá þeim hv. þingmanni sem talaði þar á undan. Ég held að ég hafi ekki sagt að ekki hafi verið hægt að setja frv. upp öðruvísi af því að það hafi verið talið of flókið. Ég held að hv. þm. hljóti annaðhvort að hafa misskilið mig eða misheyrt. Auðvitað eru fjölmörg frv. sett upp á þann hátt að vera breytingartillögur og það hefði vel verið hægt að gera það þannig. Ég held ég hafi orðrétt sagt að það hafi verið talið að þetta væri til einföldunar og skilningsauka. Ég sagði líka áðan að kannski var það ekki rétt aðferð, kannski var það á misskilningi byggt. En þetta varð niðurstaðan, ekki að það hefði ekki verið hægt að hafa annan hátt á, þannig að það sé alveg skýrt.

Hv. þm. sagði einnig að hann teldi að gildandi skipan hafi að mörgu leyti gefist vel. Út af fyrir sig má hann hafa sína skoðun á því. Ég held að forverar mínir hafi með þessu frv. ekki verið endilega að setja fram þessar breytingar af því að þeir hafi talið að hið eldra fyrirkomulag eða gildandi fyrirkomulag hafi gefist svo illa. En það hlýtur að vera eðlilegt hins vegar að færa stjórnsýsluna á annan hátt inn undir ráðuneytið sem nú er til og fer með þennan málaflokk, heldur en var áður þegar náttúruverndarmálin voru með allt öðrum hætti í stjórnkerfinu og heyrðu jafnvel undir fleiri ráðuneyti eða málaflokka sem tengdust ýmsum ráðuneytum þó að menntmrn. hafi kannski verið talið fara með náttúruverndarmálin formlega. En eftir að umhvrn. varð til þá hljótum við að telja eðlilegt að færa stjórnsýsluna þar undir með formlegri hætti en verið hefur og það er það sem ég er að leggja megináherslu á.

Varðandi gjaldtökuna vil ég segja við hv. þm. að ég er þeirrar skoðunar að það sé svo með ýmis svæði að við eigum og þurfum að taka gjald af aðgengi að þeim svæðum. Þessu hef ég lýst áður og þarf svo sem ekki að endurtaka eða ítreka. En það kann hins vegar að vera rétt hjá hv. þm. og það kom líka fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að e.t.v. mundi það aldrei svara kostnaði. Þá hlýtur auðvitað að reyna á það ef svo fer. Ég gef mér ekkert fyrir fram í því efni.

Ég held að hv. þm. hafi einnig nefnt ákvæðið um heimild til þess að loka ákveðnum landsvæðum í óbyggð. Ég tel að það sé mikilvægt og tek undir það með hv. þm. E.t.v. er nauðsynlegt að hafa einhvers konar heimildir til að það eigi við um fleiri svæði en í óbyggðum. Þar eru auðvitað mikilvæg náttúruverndarsvæði sem við þurfum að gæta að og hafa allan vara á að ekki skemmist. En þá erum við komin að vandamálunum gagnvart eignarhaldinu og rétti eigenda landsvæða ef við förum út í það að tala um fleiri svæði en þau sem eru í óbyggðum.