Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 19:51:06 (7332)

1996-06-05 19:51:06# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[19:51]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú einmitt atriði sem væri ástæða til þess að ræða. Á yfirleitt að vera stjórn? Það má spyrja hvers vegna sú leið var valin. Ég held satt að segja að það hljóti að vera, hvort sem það var meðvitað eða ómeðvitað, að þá hafi menn kannski verið að líta til þess gagns sem stjórn Náttúruverndarráðs eða ráðið sjálft hefur gert með því að þangað hefur verið hægt að sækja reynslu og þekkingu. En þá skiptir líka afskaplega miklu máli hvernig stjórnin er skipuð. Mér líst ekki alveg nógu vel á hvernig þar er á málum haldið því að þar eiga að sitja í ákveðnir hagsmunaaðilar. Að vísu á Náttúruverndarráð að skipa einn fulltrúa í stjórnina. En ekki meira um það.

Ég er ánægð með að hæstv. ráðherra skuli hafa heyrt þetta með grasatínsluna og treysti því að hann og ég og fleiri munum eftir því þegar heildarendurskoðun fer fram og að það verði ekki orðið of seint.