Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

Miðvikudaginn 04. október 1995, kl. 21:44:07 (18)

1995-10-04 21:44:07# 120. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)#, LB
[prenta uppsett í dálka]

Lúðvík Bergvinsson:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Hæstv. forsrh. hefur nú kynnt þegnum sínum stefnu ríkisstjórnarinnar. Fátt kom á óvart í ræðu forsrh., enda hefur ríkisstjórnin vanþóknun á nýmælum. Eins og kunnugt er stendur íslenska þjóðin frammi fyrir margvíslegum vandamálum. Atvinnuleysi er landlægt, laun lág, verð á neysluvöru með því hæsta sem þekkist og afkoma fyrirtækja slök.

Því miður er ekki að heyra á máli hæstv. forsrh. að ætlunin sé að blása til sóknar. Þvert á móti skal varðveita óbreytt ástand og hlúð af alúð að sérhagsmunahópum. Ræða forsrh. er hryggilegt dæmi um skort á framtíðarsýn og djörfung á tímum þegar slíkra kosta er þörf. Til að gæta alls sannmælis verður þó að benda á að ekki eru allir meðlimir ríkisstjórnarinnar jafnilla haldnir af doða. Hæstv. menntmrh. hefur með eftirtektarverðum hætti markað brautina fram á við. Hann vill hervæða þjóðina.

Í nýafstaðinni kosningabaráttu lagði Alþfl. til að kvótakerfið í landbúnaði yrði afnumið. Undir þessar hugmyndir Alþfl. hafa málsmetandi bændur á Suðurlandi tekið, ekki til þess að gleðja hin tifandi hjörtu okkar krata heldur hitt að þeir eru búnir að gera sér grein fyrir því að landbúnaðarstefna Jónasar frá Hriflu, hugmyndafræðings núverandi stjórnarflokka, hefur fyrir löngu gengið sér til húðar. Það er hreint með ólíkindum að Sjálfstfl., hinn meinti talsmaður frjálsra viðskipta, skuli verja með oddi og egg hið miðstýrða sovétfyrirkomulag sem stjórnkerfi og landbúnaðarframleiðsla öll óneitanlega er.

Nú nýverið var undirritaður í landbrn. samningur um breytingu á núgildandi búvörusamningi um framleiðslu sauðfjárafurða. Hann felur í sér að á næstu fimm árum muni ríkissjóður verja sem nemur 12 þúsund millj. kr. til sauðfjárræktar, samningur sem eykur útgjöld ríkissjóðs um 1.500--2.000 millj. kr. miðað við gildandi búvörusamning. Árangurinn af útgjöldum er enginn. Bændur munu áfram hjakka í sama farinu. Því er eðlilegt að aðrir framleiðendur í landbúnaði eins og kartöflubændur og garðyrkjubændur, sem áttu erfitt uppdráttar, spyrji sem svo: Munum við fá sams konar styrki?

Herra forseti. Ríkisstjórn sem hefur efni á að eyða fjármunum á þennan hátt getur ekki rökstutt frestun á gildistöku laga um greiðslu bóta til þolenda afbrota. Hvernig á lögmaður, sem ég ræddi við í gær, að útskýra fyrir fórnarlambi ofbeldisverks að útgjöld sem nema tugum ef ekki hundruðum þúsunda kr. verða ekki endurgreidd? Lögmaðurinn hafði hvatt til að lagt yrði út í kostnað í trausti þess að hann fengist endurgreiddur. Á meðan renna 12 þúsund millj. til sauðfjárræktar. Hvers konar gildismat liggur eiginlega til grundvallar þeirri forgangsröðun almannafjár, sem fylgdi því frv. til fjárlaga, þar sem m.a. er lagt til að leggja aukin gjöld á sjúklinga, afnema vísitölutengingu bótagreiðslna, miða afslátt eftirlaunaþega við 70 ár í stað 67 og mun hærri fjárhæð renni til sauðfjárframleiðslu en sem nemur framlögum til Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri samanlagt. Háleit orð hæstv. forsrh. um menntun sem fjárfestingu virka heldur hjákátleg í þessu samhengi.

Það er fráleitt svo að Alþfl. vilji leggja niður landbúnað á Íslandi heldur beinist gagnrýni okkar að þeirri leið sem stjórnvöld hafa valið til að ná því markmiði að hér sé við lýði öflugur landbúnaður, landbúnaður sem framleiðir úrvalsvörur. Núverandi kerfi er bændum fjandsamlegt, neytendum og skattgreiðendum. Það er kerfið sem menn vilja leggja niður.

Herra forseti. Upplýsingaöld er gengin í garð. Nútímatækni í boðskiptum og upplýsingamiðlun mun á komandi árum hafa gríðarleg áhrif á þróun atvinnuveganna hér á landi, jafnvel svo mikil að jafna megi við nýja iðnbyltingu. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld, ætli þau að tryggja áframhaldandi velferð og hagsæld þegnanna, móti stefnu í þessu mikilvæga máli. Vöxtur og framgangur atvinnuveganna mun á næstu árum taka í veigamiklum atriðum mið af því hvernig til tekst í þessu efni. Við hljótum því að fara að fordæmi annarra þjóða og undirbúa þjóðina undir þessar breytingar. Upplýsingasamfélagið er staðreynd. Það mun verða rauði þráðurinn í atvinnustefnu framtíðarinnar. Sem dæmi um breytingar sem hafa átt sér stað má nefna að mörg evrópsk fyrirtæki eru farin að láta færa sitt daglega bókhald hjá fyrirtækjum í Asíu. Fjarlægðir eru ekki lengur vandamál. Í því liggja möguleikar okkar. Á þessa byltingu minnist forsrh. ekki. Óvíst er að hún hafi komist á dagskrá frekar en önnur framfaramál.

Herra forseti. Eins og við mátti búast eyddi hæstv. forsrh. litlum tíma í að fjalla um utanríkismál enda hefur hann illan bifur á útlendum hugmyndum. Ekki er minnst einu orði á ríkjaráðstefnu ESB, sem er á næsta leiti en niðurstöður hennar geta skipt okkur talsverðu máli. Það þarf þó ekki að koma á óvart.

Á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva nú nýverið var þeirri spurningu velt upp í ljósi þeirra styrkja, sem Evrópusambandið og Norðmenn veita sjávarútvegsfyrirtækjum sínum, hvort sú stund gæti runnið upp að íslenskur sjávarútvegur verði ekki lengur samkeppnisfær við sjávarútveg þessara þjóða. Spurningunni var ekki svarað þar og verður ekki svarað hér. En á það var bent að nauðsynlegt sé að ræða þessa hluti því að sú staða gæti komið upp að við hefðum ekki nema um tvennt að velja: annaðhvort að styrkja íslenskan sjávarútveg með fjárframlögum eða að ganga í Evrópusambandið. Þó ekki væri nema í þessu ljósi tel ég nauðsynlegt að Íslendingar ræði Evrópusambandið og að hinn pólitíski fundarstjóri, hæstv. forsrh., setji málið á dagskrá.

Góðir landsmenn. Það er ljóst eftir að hafa hlustað á stefnuræðu forsrh. að ábyrgð stjórnarandstöðunnar er mikil. Hennar mun bíða að vinna það þrekvirki að draga núv. ríkisstjórn upp úr hjólförum stöðnunar og afturhalds. Í það verk munum við alþýðuflokksmenn einhenda okkur. --- Góðar stundir.